Mikill ótti hjá fólki

Ástandið á Lombok er hræðilegt en fjöldi fólks hefur búið …
Ástandið á Lombok er hræðilegt en fjöldi fólks hefur búið í tjöldum síðan skjálftinn reið yfir 5. ágúst. AFP

„Við finnum vel fyrir hræðslu hjá fólki,“ segir Dagný Þorláksdóttir en hún býr ásamt kærasta sínum á indónesísku eyjunni Balí. Jarðskjálfti, 6,9 að stærð, reið yfir á næstu eyju við Balí, Lombok, í gær. Tvær vik­ur eru frá því mann­skæður jarðskjálfti reið yfir á Lombok og varð sá yfir 400 manns að bana.

Ann­ar skjálfti varð á eyj­unni fyrr í gær, en sá var minni eða af stærðinni 6,3. Skjálft­inn sem varð 5. ág­úst mæld­ist 6,9 að stærð og jafnaði hann tugþúsund­ir heim­ila við jörðu um gjörv­alla eyj­una. Tug­ir þúsunda slösuðust í skjálft­an­um. 

Dagný segir að hún finni vel fyrir skjálftunum og almennt sé fólk mjög stressað. „Þó að það komi ekki nema lítill skjálfti þá grípur um sig mikill ótti,“ segir Dagný en hún hefur búið í bænum Seminyak á Balí undanfarna átta mánuði.

Dagný Þorláksdóttir hefur búið á Balí undanfarna átta mánuði.
Dagný Þorláksdóttir hefur búið á Balí undanfarna átta mánuði. Ljósmynd/Aðsend

Hún hefur ekki tekið eftir neinum skemmdum í Seminyak vegna skjálftanna en reynir þó að koma sér út úr húsi þegar hún finnur fyrir skjálfta vegna þess að húsin eru ekki þau traustustu.

Ástandið á Lombok hræðilegt

„Einnig er talað um mögulega flóðahættu og fólk er beðið um að hafa áætlun vegna þess. Flestir eru frekar rólegir yfir því,“ segir Dagný og bætir við að ástandið á Lombok sé allt annað:

„Þar er allt í rúst og stutt í að rigningartímabilið byrji þannig að þeir geta ekki hafið endurbyggingu húsa fyrr en á næsta ári. Vinur minn býr þar með konu og tveimur börnum í tjaldi en þorpið þeirra varð fyrir mikilli eyðileggingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert