Bandaríkin beita fleiri Rússa refsiaðgerðum

Sigal Mandelker, hjá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag frekari refsiaðgerðir …
Sigal Mandelker, hjá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag frekari refsiaðgerðir gegn rússneskum aðilum og fyrirtækjum þeim tengdum. Hún sagði einnig að aðgerðirnar yrðu fleiri. AFP

Tveir rússneskir ríkisborgarar, eitt rússneskt fyrirtæki og eitt slóvakískt fyrirtæki sæta nú refsiaðgerðum af hálfu bandarískra yfirvalda fyrir að aðstoða annað rússneskt fyrirtæki við að komast hjá refsiaðgerðum að því er fram kemur í umfjöllun Reuters.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að fyrirtækin Vela-Marine Ltd. í Sankti-Pétursborg í Rússlandi og Lanco S.R.O. í Slóvakíu myndu sæta refsiaðgerðum ásamt tveimur rússneskum borgurum, fyrir að koma að starfsemi fyrirtækisins Divetechnoservices í Sankti-Pétursborg.

Divetchnoservices var látið sæta refsiaðgerðum frá því í júní eftir að hafa keypt köfunarbúnað og -kerfi fyrir rússnesk yfirvöld, meðal annars leyniþjónustu Rússlands, FSB.

Sigal Mandelker, aðstoðarráðherra hryðjuverka- og fjármálaeftirlitsdeildar fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna, tilkynnti fyrir hönd ráðuneytisins ákvörðunina um refsiaðgerðirnar. Samkvæmt umfjöllun AFP staðfesti Mandelker að vænta megi fleiri refsiaðgerða gegn rússneskum aðilum á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert