Vatn á myllu Muellers

Sakfelling fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, og játning fyrrverandi lögmanns hans munu væntanlega verða vatn á myllu Roberts Mueller, sérstaks saksóknara í rannsókn á afskiptum Rússa af kosningabaráttunni 2016.

Rannsókn Muellers hefur nú staðið yfir í fimmtán mánuði. Aftur á móti er talið ólíklegt að sakfelling Paul Manafort og játning Michael Cohen muni stöðva krossferð Trumps gegn rannsókn Muellers en forsetinn hefur lýst henni sem nornaveiðum.

Aftur á móti telja sérfræðingar sem AFP-fréttastofan ræddi við að þetta geti þýtt að fleiri verði samstarfsfúsir og samþykki að greina frá því sem þeir vita. 

Stutt er í mikilvægar kosningar í Bandaríkjunum og er mikilvægt fyrir Trump að repúblikanar haldi meirihluta sínum í öldungadeildinni sem og fulltrúadeildinni þegar gengið verður til kosninga í nóvember.

Fyrstu viðbrögð forsetans við máli Manafort og Cohen í gærkvöldi voru svipuð því sem flestir áttu von á: „Ég á ekki aðild að þessu.“ Trump segir að sé aðeins hluti af nornaveiðum Muellers.

Mueller rannsakar hvort kosningaskrifstofa Trump hafi með ólögmætum hætti unnið með Rússum í kosningabaráttunni 2016 en ásakanir þar að lútandi hafa farið hátt allt frá þeim tíma. 

Mál Manafort er fyrsta málið sem teymi Muellers fór með fyrir dóm. Þar var það niðurstaða kviðdóms að kosningastjóri Trumps hafi gerst sekur um skattaundanskot í átta tilvikum, fjársvik og brot á reglum varðandi upplýsingagjöf um erlenda bankareikninga. 

Hins vegar tengist málið í raun ekki tengslum við Rússa né heldur kosningaskrifstofu Trumps árið 2016. Hið sama á við um mál Cohens. Þar játaði Cohen skatta- og fjársvik hvað varðar eigin viðskipti og eins brot á fjármögnun kosningabaráttunnar með því að greiða tveimur konum fyrir að þegja um meint ástarsamband við Trump. Að sögn Cohen voru greiðslurnar að áeggjan forsetans. 

Þrátt fyrir að málin tengist ekki rannsókn Muellers beint þá þykja þau styrkja stoðir rannsóknarinnar og að hún sé ekki tilefnislaus líkt og helstu andstæðingar hennar hafa haldið fram. 

„Sakfelling Manafort sýnir að rannsókn Muellers er langt frá því að vera nornaveiðar,“ segir Adam Schiff, þingmaður demókrata.

„Hún sýnir einnig að kosningabaráttan og stjórnun hennar tengist mjög fólki sem á sér ófyrirleitna viðskiptasögu og erlend tengsl sem valda áhyggjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert