Finna líka nálar í eplum og banönum

Saumnálar hafa nú líka fundist í banönum og eplum í …
Saumnálar hafa nú líka fundist í banönum og eplum í Ástralíu. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Saumnálar hafa nú einnig fundist í eplum og banönum í Ástralíu að sögn lögregluyfirvalda í landinu. Greint var frá því fyrir helgi að saumnálar hefðu fundist í jarðarberjum og hefur málið leitt til töluverðs ótta hjá íbúum, auk þess sem sala á jarðarberjum hefur hrunið.

BBC segir tilkynningar hafa nú borist frá íbúum í öllum fylkjum Ástralíu um saumnálar í jarðarberjum og hefur heilbrigðisráðherrann Greg Hunt, sagt um „grimmilegan glæp“ að ræða. Hefur hann fyrirskipað matvælaeftirlitinu að aðstoða við rannsóknina.

Lögregla segir tilfellin þar sem nálar fundust í epla- og bananakössum í Sydney vera „einangruð“. Þau bætist þó við þau rúmlega 20 tilfelli þar sem saumnálar hafa fundist í jarðarberjaöskjum bara í New South Wales-fylki.

Fyrsta tilkynningin um nálarfund í jarðarberjum barst frá Queensland og eru yfirvöld þar nú að rannsaka hvort einn einstaklingur beri ábyrgð á nálum í berjum í fylkinu, eða hvort um sé að ræða nokkra einstaklinga. Einn maður þurfti aðhlynningar við á sjúkrahúsi eftir að hafa borðað jarðarber með nál í.

Lögregla hefur nú varað fólk við að herma eftir atvikinu og segir þá sem gerist seka um slíkt geta átt yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsisdóm.

Nokkrar jarðarberjategundir hafa þegar verið teknar úr sölu í Ástralíu og þá hafa stærstu matvöruverslanir Nýja-Sjálands hætt að kaupa inn áströlsk jarðarber.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert