Frönsku kartöflurnar minni eftir sumarið

Góða veðrið í Evrópu í sumar hefur nú áhrif á …
Góða veðrið í Evrópu í sumar hefur nú áhrif á einn af þjóðarréttum Belga.

Belgískir kartöflubændur hafa varað við því að frönsku kartöflurnar í ár kunni að verða þremur sentimetrum minni en venjulega, að því er BBC greinir frá og er ástæðan sögð vera mikill þurrkur í sumar.

Pierre Lebrun, formaður samtaka kartöflubænda, segir að uppskeran í ár sé um 25% smærri en vanalega. „Af því að kartöflurnar eru minni en vanalega verða frönsku kartöflurnar sem við borðum minni,“ hefur dagblaðið Sudpresse eftir Lebrun.

Franskar kartöflur eða „frites“ eins og Belgar kalla þær eru einn af þjóðarréttum Belgíu og eru gjarnan borðaðar með majonesi. Belgar hafa raunar lagt fram beiðni hjá Sameinuðu þjóðunum um að rétturinn komist á skrá yfir menningaminjar Belgíu, en frönsku kartöflurnar eru oft sagðar eiga uppruna sinn í Namur í Belgíu þar sem íbúar borðuðu mikið af djúpsteiktum fiski. Er áin Meuse fraus svo veturinn 1680 djúpsteiktu íbúarnir kartöflur í staðinn fyrir fisk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert