Netárásum tengdum þjóðríkjum fjölgar

Hnattrænar netárásir þar sem mörkin milli pólitíkur og glæpa eru …
Hnattrænar netárásir þar sem mörkin milli pólitíkur og glæpa eru óljós hafa í sívaxandi mæli tengsl við ákveðin þjóðríki að sögn Europol. AFP

Hnattrænar netárásir þar sem mörkin milli pólitíkur og glæpa eru óljós hafa í sívaxandi mæli tengsl við ákveðin þjóðríki. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Europol um netglæpi, sem gefin var út í dag.

Vírusar á borð við WannaCry og NotPetya, þar sem tölva notandans er tekin í gíslingu og lausnargjalds krafist sýktu hundruð þúsunda tölva um heim allan í fyrra „Gagnagíslaforrit halda yfirráðum sínum,“ segir í skýrslunni.

„Til viðbótar við árásir sem byggja á fjárhagslegum ávinningi glæpamanna þá hefur verið verulegur vöxtur í tilkynningum um hnattrænar árásar sem eigna má þjóðríkjum.“

Sífellt erfiðara sé að úrskurða hvort um sé að ræða þróuð samtök netglæpamanna, árásir sem njóti stuðnings ríkisstjórna eða árásir viðvaninga.

Bandarísk stjórnvöld ákærðu í byrjun þessa mánaðar norðurkóreskan forritara fyrir tölvuárás með WannaCry-veirunni á Sony-kvikmyndaframleiðandann árið 2014 og á seðlabanka Bangladess árið 2016. Fullyrða Bandaríkin að árásirnar hafi verið gerðar að beiðni norðurkóreskra stjórnvalda.

Bandarísk og bresk yfirvöld kenndu rússneska hernum, í febrúar á þessu ári, um NotPetya-gagnagíslaforritið og sögðu það vera tilraun rússneskra ráðamanna til að auka óstöðugleika í Úkraínu sem hafi farið úr böndunum.

Árásirnar nú frekar klæðskerasniðnar

Að sögn Europol hefur nú dregið úr tilviljanakenndum árásum netglæpmanna sem þess í stað kjósa frekar að gera árásir sem séu klæðskerasniðnar að ákveðnum einstaklingum eða fyrirtækjum og þar sem gróðavonin sé meiri.

Þá sé athygli netglæpamanna í auknum mæli að beinast að rafrænni mynt á borð við Bitcoin í stað hefðbundinna fjármálafyrirtækja.

Engu að síður verði töluverður fjöldi fórnarlamba áfram fyrir netsvikum á borð við vefveiðar (phishing), fjársvik og ástarpósta.

Europol segir þá verulegt áhyggjuefni að streymi á barnamisnotkun fari vaxandi og er það sá angi netglæpa sem stofnunin segir hvað óhugnanlegastan. Þetta séu verulega flókin mál í rannsókn og líkur séu á að þessum streymið eigi enn eftir að aukast.

Varar Europol enn fremur við að ný gagnalöggjöf Evrópusambandsins hamli rannsókn lögregluyfirvalda á netglæpum og geri þeim erfiðara um vik að bera kennsl á netglæpamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert