Hafa efasemdir um aukin völd Frontex

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis. AFP

Evrópusambandið verður að sannfæra ráðamenn á Spáni, Ítalíu og í Grikklandi um að styðja áform sambandsins um að styrkja eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins. Þetta sagði Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, við blaðamenn í dag fyrir fund leiðtoga Evrópusambandsins sem fram fer í austurrísku borginni Salzburg.

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, hefur lagt fram tillögur um að víkka út valdsvið landamærastofnunar sambandsins, Frontex, og fjölga landamæravörðum hennar úr nokkur hundruð í 10 þúsund. Sagði Kurz ljóst að ráðamenn sumra ríkja samstarfsins hefðu efasemdir og þá þyrfti að sannfæra.

Ríkin þrjú eru gjarnan fyrsti viðkomustaður fólks innan Schengen-svæðisins sem hælisleitendur koma til segir í frétt AFP. Kurz sagði málið snúast um fullveldi ríkjanna, en tillögurnar gera ráð fyrir að landamæraverðir Frontex geti gripið inn í landamæragæslu einstakra ríkja þyki ástæða til án samþykkis ráðamanna þeirra.

Kurz gaf í skyn að því er segir í fréttinni að ríkin þrjú væru líklega ekki að öllu leyti ósátt við stöðu mála í dag þar sem margir hælisleitendanna sem kæmu til þeirra gætu í framhaldinu ferðast meira eða minna hindrunarlaust til annarra ríkja innan Schengen-svæðisins. Ráðamenn í Ungverjalandi hafa þegar lýst sig andsnúna tillögunum sem þeir segja að muni svipta landið rétti sínum til þess að verja eigin landamæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert