Hefur fengið líflátshótanir

Brett Kavanaugh, sem Donald Trump tilnefndi sem hæstaréttardómara, hafnar alfarið …
Brett Kavanaugh, sem Donald Trump tilnefndi sem hæstaréttardómara, hafnar alfarið ásökununum. AFP

Christine Blasey Ford, konan sem hefur sakað Brett Kavananaugh dómaraefni Donald Trumps Bandaríkjaforseta um kynferðislegt ofbeldi þegar þau voru á táningsaldri, hefur fengið líflátshótanir eftir að hún greindi frá kynferðisofbeldinu.

Hefur fréttastofa CNN eftir lögfræðingi Ford að hún hafi fengið líflátshótanir og hafi sætt linnulausum árásum.

Ford muni heldur ekki mæta fyrir dómaranefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á mánudag til að bera vitni, líkt og til stóð. Er Ford sögð vilja að bandaríska alríkislögreglan FBI ljúki við að  rannsaka Kavanaugh áður en hún ber vitni.

„Það er of snemmt að ræða um yfirheyrslu á mánudag af því að Ford hefur verið að takast á við hótanir og árásir og hefur þurft að beina athygli sinni að því að tryggja öryggi fjölskyldu sinnar,“ hefur CNN eftir lögfræðingnum.

Kavanaugh sem hefur alfarið hafnað ásökununum, fundaði í gær með ráðamönnum í Hvíta húsinu annan daginn í röð.

Ford, sem er prófessor í sálfræði, hefur sakað Kavanaugh um að hafa, í fé­lagi við ann­an ung­an mann, rekið sig inn í svefn­her­bergi í ung­linga­sam­kvæmi á heim­ili í Mont­gomery-sýslu. Þeir hafi báðir verið mjög ölvaðir og fé­lag­inn hafi horft á meðan Kavan­augh hafi reynt að fá sínu fram í rúmi í her­berg­inu, þuklað á henni og mis­notað.

Kavan­augh hafi reynt að klæða hana úr sund­bol og föt­um sem hún klædd­ist yfir hon­um. Einnig hafi hann sett hönd sína fyr­ir munn henn­ar þegar hún hafi reynt að kalla eft­ir hjálp. 

Kavanaugh hefur sagt ásakanirnar vera „fullkomlega rangar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert