Látinn taka pokann sinn vegna líkbílsins

Kæligámurinn með líkunum hefur vakið litla hrifningu íbúa í þeim …
Kæligámurinn með líkunum hefur vakið litla hrifningu íbúa í þeim hverfum þar sem hann hefur verið geymdur. AFP

Yfirmaður tæknideildar lögreglu í Jalisco-fylki í Mexíkó hefur verið látinn taka pokann sinn, eftir að í ljós kom að um 150 lík voru geymd í kæligámi þar sem líkhúsin voru full. Sjálfur segir hann hins vegar yfirvöld í fylkinu vera að gera hann að blóraböggli, þar sem hann beri ekki ábyrgð á geymslu líkanna, að því er BBC greinir frá.

Greint var frá því fyrr í vikunni að flutn­inga­bíll með kæligámi sem geymdi lík hefði vakið mikla reiði hjá íbú­um í Jalisco, sem m.a. hefðu kvartað und­an lykt­inni.

„Við erum með fullt af börn­um í hverf­inu [...] þetta gæti gert okk­ur öll veik,“ sagði José Luis Tov­ar, einn íbú­anna.

Sam­kvæmt mexí­kósk­um lög­um er bannað að brenna lík í þeim mál­um sem tengj­ast of­beld­is­glæp­um og sögðu yf­ir­völd í Jalisco um skammtímalausn að ræða á meðan unnið væri að lausn sem virkaði til lengri tíma, en ofbeldisalda hefur verið í fylkinu.

Gonzalez Sánchez, talsmaður Jalisco-fylkis, sagði í samtali við útvarpsstöð í fylkinu að Cotero hefði verið rekinn af því að hann hefði ekki tekið ábyrgð á geymslu líkanna, að því er Reuters greinir frá.

Cotero sagði hins vegar í samtali við dagblaðið Excelsior að það hefði verið skrifstofa saksóknara fylkisins sem hefði fyrir tveimur árum ákveðið að nota þessa geymsluaðferð til að bregðast við uppsöfnuðum fjölda líka. Hann bætti við að annar kæligámur með 150 lík til viðbótar væri einnig á ferð í fylkinu. Þá teldi hann ástæðu þess að hann væri gerður að blóraböggli nú vera þá að hann hefði gagnrýnt rannsókn á hvarfi þriggja kvikmyndanema fyrr á árinu.

„Það er ekki fyrr en nú sem þeir er að skoða þetta [...] Það er svona áhrifaleysi sem veldur því að fylkið okkar er á svona slæmum stað,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert