Óvinsældir Trumps gefa demókrötum byr fyrir kosningarnar

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Útlit er fyrir mjög spennandi þingkosningar í Bandaríkjunum 6. nóvember og kannanir benda til þess að demókratar hafi meðbyr, séu jafnvel líklegir til að fá meirihluta í fulltrúadeild þingsins. Ólíklegra er hins vegar að þeir fái meira en helming þingsætanna í öldungadeildinni. Til að ná meirihluta þurfa demókratar að bæta við sig a.m.k. 23 sætum í fulltrúadeildinni og tveimur í öldungadeildinni.

Fréttaskýrandi The Wall Street Journal segir að flestir þeirra repúblikana sem eigi á hættu að missa sæti sín í fulltrúadeildinni séu fulltrúar úthverfakjördæma þar sem margir kjósendanna séu óánægðir með Donald Trump forseta. Þingmennirnir þurfi því að finna leiðir til að fá atkvæði þessara kjósenda þótt þeir séu andvígir forsetanum.

Fréttaskýrandinn, Reid J. Epstein, bendir á að í síðustu tuttugu fulltrúadeildarkosningum á miðju kjörtímabili forseta landsins hafi flokkur hans tapað þingsætum í átján. Að meðaltali missti flokkur sitjandi forseta 29 sæti í fulltrúadeildinni. Repúblikanar töpuðu t.a.m. 30 fulltrúadeildarmönnum í kosningunum árið 2006 á miðju kjörtímabili George W. Bush þegar hann var með álíka lítið fylgi í könnunum og Trump nú. Epstein segir að þingmenn í flokkunum tveimur spái því að demókratar bæti við sig 15 til 50 sætum í þingdeildinni.

Með mikið fylgi meðal repúblikana

Nýleg könnun Washington Post og CNN bendir til þess að 52% skráðra kjósenda ætli að kjósa demókrata í kjördæmum sínum í þingkosningunum og 38% þeirra ætla að kjósa repúblikana. Í slíkum könnunum eru þátttakendurnir spurðir hvort þeir séu líklegir til að kjósa demókrata eða repúblikana í kjördæmum sínum án þess að nöfn frambjóðendanna séu nefnd. Til að eiga möguleika á meirihluta í fulltrúadeildinni er talið að demókratar þurfi að vera með verulegt forskot í slíkum könnunum, eða um það bil sjö prósentustig. Þótt munurinn sé nú tólf prósentustig hefur hann breyst mikið á síðustu vikum og stundum verið mun minni, þannig að ekki er víst að demókratar haldi forskotinu.

„Ófyrirsjáanlegir atburðir geta gert sigurmöguleika demókrata að engu,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Larry Sabato, forstöðumanni rannsóknastofnunar Virginíuháskóla í stjórnmálafræði.

Könnun, sem CNN birti í vikunni, bendir til þess að aðeins 36% kjósendanna séu ánægð með frammistöðu Trumps í forsetaembættinu, sex prósentustigum færri en í sams konar könnun í ágúst. Á meðal óflokksbundinna kjósenda minnkaði stuðningurinn við forsetann enn meira, eða úr 47% í 31%. Kannanir benda hins vegar til þess að stuðningurinn við Trump sé mjög mikill meðal félaga í Repúblikanaflokknum, eða um 80%.

Þótt talið sé líklegra að repúblikanar haldi meirihlutanum í öldungadeildinni sagði Mitch McConnell, leiðtogi þeirra í deildinni, fyrr í vikunni að ekki væri víst að það tækist. Hann kvaðst telja að demókratar gætu náð þingsætum af flokknum í Flórída, Nevada, Norður-Dakóta, Tennessee og Vestur-Virginíu. Hann sagði að baráttan um þau væri tvísýn og líkti henni við „hnífabardaga í húsasundi“, að sögn AFP.

Kjörsóknin mismikil

Cliff Young, forstjóri rannsóknafyrirtækisins Ipsos Public Affairs, telur að þrír kjósendahópar geti ráðið úrslitum í þingkosningunum. Hann nefnir í fyrsta lagi konur sem hann segir vera miklu ólíklegri til að styðja Trump en karlmenn. Hann telur að miðstéttarfólk í úthverfunum geti einnig skipt sköpum. Þessi hópur hafi yfirleitt stutt repúblikana vegna stefnu þeirra í skatta- og efnahagsmálum en margir þeirra kunni að sitja heima vegna óánægju með framgöngu Trumps. Young nefnir að lokum mikinn stuðning Trumps meðal félaga í Repúblikanaflokknum sem eru líklegri til að mæta á kjörstað í kosningum á miðju kjörtímabili forsetans en minnihlutahópar þar sem fylgi demókrata er mikið.

Gerald F. Seib, fréttaskýrandi The Wall Street Journal, segir það geta staðið demókrötum fyrir þrifum að þeim veitist oft erfiðara en repúblikönum að fá stuðningsmenn sína til að kjósa í kosningum á miðju kjörtímabili forsetans. Hann bendir á að í þingkosningunum á miðju fyrra kjörtímabili Baracks Obama árið 2010 var kjörsóknin meðal demókrata 40% minni en í forsetakosningunum tveimur árum áður. Það sama gerðist árið 2014, þegar síðara kjörtímabil Obama var hálfnað. Eina undantekningin á þessari fylgisþróun á síðustu árum varð í kosningunum 2006 þegar demókratar náðu meirihluta í báðum deildum þingsins.

Kínverjar svara tollum Trumps

Stjórnvöld í Kína tilkynntu í gær að þau myndu leggja refsitolla á bandarískan varning að andvirði 60 milljarða dala eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að leggja verndartolla á kínverskar vörur að andvirði 200 milljarða dala vegna ósanngjarnra viðskiptahátta Kínverja. Kínversku tollarnir eiga að nema 5-10% og taka gildi á mánudaginn kemur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert