Sharif látinn laus úr fangelsi

Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan (fyrir miðju), við jarðarför eiginkonu …
Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan (fyrir miðju), við jarðarför eiginkonu sinnar í síðustu viku. AFP

Dómstóll í Pakistan hefur fyrirskipað að Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, skuli látinn laus úr fangelsi en tveir mánuðir eru frá því Sharif hóf að afplána tíu ára fangelsisdóm vegna spillingar.

Frestaði dómstólinn afplánun Sharif og Maryam dóttur hans þar til áfrýjunardómstóll hefur úrskurðað í máli þeirra. Feðginin neita hins vegar að hafa gert nokkuð saknæmt.

Vika er frá því að eiginkona Sharifs, Kulsoom, lést af völdum krabbameins. Var þeim Sharif og Maryam heimilað að vera viðstödd jarðarförina en var gert að snúa aftur í fangelsið að henni lokinni. BBC segir búist við að þau verði látin laus úr fangelsi síðar í dag.

Sharif var ákærður í júlí fyrir spillingu í tengslum við eignarhald tengt fjölskyldu hans á fjórum lúxusfasteignum í London. Sjálfur segir Sharif að ákærurnar séu runnar af pólitískum rótum.

Dóttir hans, Maryam Nawaz Sharif, fékk sjö ára dóm fyrir aðstoða við glæpinn og ár til viðbótar fyrir að vera ekki samstarfsfús. Tengdasonur Sharifs, Safdar Awdan, hlaut þá eins árs dóm fyrir að sýna ekki samstarfsvilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert