Skurðlæknir og kærasta kærð fyrir nauðgun

Grant William Robicheaux og Cerissa Laura Riley notuðu bari og …
Grant William Robicheaux og Cerissa Laura Riley notuðu bari og veitingastaði til að finna fórnarlömb sín. Ljósmynd/Lögreglan í Newport

Skurðlæknir í Kaliforníu og kærasta hans hafa verið ákærð fyrir að nauðga tveimur konum, en rannsakendur telja fórnarlömbin kunna að skipta „hundruðum“ að því er BBC greinir frá.

Þau Grant William Robicheaux og Cerissa Laura Riley eru ákærð fyrir að hafa ráðist á tvær konur sem þau hittu á bar og veitingastað árið 2016, en BBC hefur eftir saksóknara í málinu að myndbönd af mögulegum fórnarlömbum sem fundist hafi í síma sakborninganna hafi skipt þúsundum og nú sé unnið að því að bera kennsl á þær konur sem sjást á myndböndunum.

Saksóknari Orange-sýslu, Tony Rackauckas, sagði á fundi með fréttamönnum að parið sé talið hafa notað snyrtilegt útlit sitt til að vekja falska öryggiskennd hjá fórnarlömbum sínum „Við teljum sakborningana hafa notað aðlaðandi útlit sitt og persónutöfra til að draga úr hömlum mögulegrar bráðar sinnar,“ sagði Rackauckas.

„Á nokkrum myndböndum sjást konur svo ölvaðar að þær geta hvorki veitt samþykki, né mótmælt og bregðast því varla við kynferðislegum umleitunum sakborninganna. Á grundvelli þessara sannana teljum við að þarna úti séu enn mörg fórnarlömbin sem ekki hafa verið borin kennsl á.“

Robicheaux er bæklunarskurðlæknir og kom eitt sinn fram í raunveruleikaþættinum „Online Dating Rituals of the American Male“ á Bravo-sjónvarpsstöðinni.

Rannsakendur segja parið hafa unnið í sameiningu að því að hitta konur á börum, þau hafi því næst byrlað þeim ólyfjan eða neytt þær til að drekka mikið magn áfengis, áður en þau fóru með þær í íbúð Robicheaux þar sem þeim var nauðgað.

Kennsl hafa verið borin á tvær konur sem parið nauðgaði 2016. Sú fyrri hitti þau á veitingastað og var í kjölfarið boðið með þeim í partí um borð í bát. Þegar hún var orðin ölvuð fóru þau síðan með hana í íbúð Robicheaux þar sem þau nauðguðu henni.

Hún mætti á lögreglustöðina í Newport næsta dag og við blóðrannsókn fannst mikið magn lyfja í blóði hennar að sögn saksóknara.

Hin konan segist hafa vaknað í íbúð Robicheaux eftir að hafa verið úti að skemmta sér og hún hafi hrópað á hjálp þar til nágrannar kölluðu á lögreglu. Hún sagði lögreglu að hún hefði setið með parinu að drykkju á bar í Newport þar til hún missti meðvitund.

Robicheaux og Riley ákærð fyrir að hafa í fórum sínum mikið magn fíkniefna, m.a. smjörsýru, sveppi, ecstasy og kókaín. Þá er Robicheaux einnig ákærður fyrir að  vera með tvo óskráða hálfsjálvirka riffla í fórum sínum, auk fjögurra annarra skotvopna og mikið magn skotfæra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert