Varað við grunsamlegum færslum 2007

Forsvarsmenn Danske Bank voru varaðir við grunsamlegum peningafærslum strax 2007, …
Forsvarsmenn Danske Bank voru varaðir við grunsamlegum peningafærslum strax 2007, en gerðu ekkert í málinu. AFP

Strax árið 2007 varaði danska fjármálaeftirlitið danska bankann Danske bank við færslum frá einstaklingum sem kynnu að vera rússneskir glæpamenn. Innan við ár var þá liðið frá því að Danske bank keypti finnska bankann Sampo Bank i þeim tilgangi að opna útibú í Eistlandi.

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins DR um málið segir að viðvörunin hafi verið send Danske Bank eftir úttekt rússneska seðlabankans, sem lýsti yfir áhyggjum af að stór hópur viðskiptavina Sampo Bank virtist ekki vera búsettur í Eistlandi.

Sagði í bréfi rússneska seðlabankans að greiðslurnar kynnu að vera til komnar í því skyni að skjóta fé undan skatti og komast undan greiðslu virðisaukaskatts, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Danske Bank um meint peningaþvætti í útibúinu á árunum 2007-2015 sem kynnt var í morgun.

Rússneski bankinn skrifaði einnig í bréfi sínu að færslurnar kynnu líka að hafa þann tilgang einan að þvo fé tengt glæpastarfsemi.

Missti af tækifærinu

Með þessar aðvaranir í farteskinu hefði Danske Bank getað stöðvað grunsamlegar peningafærslur erlendra viðskiptavina strax í upphafi, en það var ekki gert.

„Danske Bank missti þess í stað af þessu fyrsta og augljósa tækifæri,“ segir í skýrslu lögfræðistofunnar Bruun & Hjejle, sem vann rannsóknina.

Í rússneska bréfinu til danska fjármálaeftirlitsins segir að viðskiptavinir Sampo Bank „séu stöðugt að senda færslur af vafasömum uppruna að andvirði milljóna rúblna í hverjum mánuði“.

Sögðust myndu rannsaka málið sjálfir

Bréfið var tekið fyrir á fundi stjórnar Danske Bank í ágúst þetta sama ár og þá var sagt að bankinn myndi standa fyrir eigin rannsókn á málinu.

Í bréfi sem lagadeild bankans og sú deild sem ber ábyrgð á baráttunni gegn peningaþvætti sendu svo fjármálaeftirlitinu í lok ágúst það ár er vísað til rannsóknarskýrslu eistneska fjármálaeftirlitsins þar sem fullyrt er að reglum hafi verið fylgt.

„Það er einnig rangt,“ segir í skýrslu Bruun & Hjejle. Einnig hafi verið fullyrt að hugmyndafræði Danske Bank varðandi peningaþvætti hafi þegar verið virkjuð hjá eistneska útibúinu og að komið hefði verið á upplýsingaflæði.

Danska fjármálaeftirlitið boðaði bankann á sinn fund í kjölfar þessa og fékk þá sambærilega fullvissu þess að málin væru komin í réttan farveg.

Fjármálaeftirlitið setti sig þó líka í samband við innri endurskoðun Danske Bank sem sagði að innri rannsókn sem gerð hafi verið á bankanum í Eistlandi hafi ekki sýnt fram á neitt marktækt.

1.500 milljarðar fóru í gegnum Sampo Bank

Bruun & Hjejle áætlar í skýrslu sinni að um 1.500 milljarðar danskra króna hafi farið í gegnum útibúið á árabilinu 2007-2015, en að óljóst sé hversu stór hluti þeirrar upphæðar hafi verið til kominn vegna peningaþvættis eða glæpsamlegra aðgerða.  

Útibúið í Eistlandi var með 15.000 viðskiptavini, sem ekki voru búsettir í Eistlandi. Bankinn hefur þegar rannsakað 6.200 þeirra og var stór hluti þess hóps tilkynntur til lögreglu. Fjöldi starfsmanna eistneska bankans var einnig tilkynntur til lögreglu fyrir brot á lögum um peningaþvætti.  

DR segir Thomas Borgen, sem sagði af sér sem bankastjóri Danske Bank í morgun, hafa um árabil verið yfirmann erlenda viðskiptabankans m.a. á þeim tíma sem brotin voru framin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert