Enn ein mannskæð skriða á Filippseyjum

Aðeins eru nokkrir dagar frá því að fellibylurinn Mangkhut fór …
Aðeins eru nokkrir dagar frá því að fellibylurinn Mangkhut fór yfir eyjarnar með þeim afleiðingum að hundruð húsa eyðilögðust og að minnsta kosti 88 manns létu lífið, aðallega vegna aurskriða sem féllu af völdum úrkomu. AFP

Tólf fórust og fjölda er saknað eftir að aurskriða féll á sveitaþorpið Tina-an á vinsælu ferðamannaeyjunni Cebu á Filippseyjum. Monsúntímabilið stendur yfir og úrhellisrigning er á eyjunni. Aðeins eru nokkrir dagar frá því að fellibylurinn Mangkhut fór yfir eyjarnar með þeim afleiðingum að hundruð húsa eyðilögðust og að minnsta kosti 88 manns létu lífið, aðallega vegna aurskriða sem féllu af völdum úrkomu. 

Óttast er að tíu hús að minnsta kosti hafi grafist undir í aur og leðju þegar brött hlíð ofan við þorpið lét undan eigin þunga með þeim afleiðingum að skriðan skall á byggðinni fyrir neðan. Talið er að flestir íbúanna hafi verið sofandi þegar skriðan féll snemma í morgun.

Yfir 100 björgunarmenn og íbúar þorpsins hafa unnið í kapp við tímann við að finna fólk á lífi í aurnum. „Meira að segja fjögurra hæða hús grófust undir skriðunni,“ hefur AFP-fréttastofan eftir sjónarvotti.

„Við höfum fundið tólf lík,“ segir Julius Regner, talsmaður almannavarna á Filippseyjum. Að minnsta kosti 50 manns er enn saknað og vonin um að finna einhverja á lífi er lítil sem engin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert