Fjögurra leitað vegna hópnauðgunar

Árásin átti sér stað í úthverfi Toulouse um síðustu helgi.
Árásin átti sér stað í úthverfi Toulouse um síðustu helgi. Kort/Google

Frönsk lögregluyfirvöld leita nú fjögurra manna, sem nauðguðu 19 ára gamalli konu fyrir utan skemmtistað í úthverfi Toulouse í suðurhluta Frakklands síðustu helgi. Myndböndum af nauðguninni hefur verið deilt á samfélagsmiðlum.

Myndskeiðin hafa vakið hneykslan og reiði almennings í Frakklandi. Þeim var fyrst deilt á Snapchat og þaðan bárust þau á Twitter. Nú hefur myndskeiðunum þó verið eytt af innanríkisráðuneyti Frakklands, sem hefur einnig  biðlað til fólks um að setja þau ekki aftur í dreifingu.

Margir notendur á Twitter sögðust bera kennsl á mennina, sem sagðir eru á aldrinum 25-30 ára gamlir, en árásin átti sér stað á bílastæði í Balma, sem er úthverfi Toulouse-borgar.

Fórnarlamb nauðgunarinnar steig fram eftir að hún komst að því að myndböndin væru í dreifingu á samfélagsmiðlum. Hún fór í útvarpsviðtal á þriðjudag, þar sem hún lýsti því að myndskeiðin myndu fylgja henni alla ævi.

Konan mun hafa sagt lögreglu að hún myndi takmarkað eftir atburðum og að hún telji að henni hafi verið byrluð lyf af einhverju tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert