Óttast að hundraða sé saknað eftir ferjuslys

Slys eru algeng á Viktoríuvatninu þar sem bátar og ferjur …
Slys eru algeng á Viktoríuvatninu þar sem bátar og ferjur eru oft ofhlaðin. Kort/Google

Óttast er að hundraða sé saknað eftir að ferju hvolfdi á Viktoríuvatninu í Tansaníu í dag. BBC hefur eftir yfirvöldum á svæðinu að fimm séu látnir og að búið sé að bjarga 102 manns.

Of margir hafi verið um borð í ferjunni, en talið er að rúmlega 400 manns hafi hins vegar verið um borð.

Ferjan MV Nyerere var nálægt landi, milli eyjanna Ukora og Bugolora, er henni hvolfdi og aðstoða íbúar á staðnum nú björgunarsveitir við að koma fólki til bjargar.

„Við biðjum Guð um að gefa okkur von og að dánartíðnin sé ekki of há,“ sagði lögreglustjórinn Adam Malima.

Slys eru algeng á Viktoríuvatninu þar sem bátar og ferjur eru oft ofhlaðin.

Rúmlega 800 manns létust á vatninu árið 1996 þegar ferjunni MV Bukoba hvolfdi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert