Þrír særðust í skotárás í Stokkhólmi

Alls voru sjö manns handteknir, þeirra á meðal eru þeir …
Alls voru sjö manns handteknir, þeirra á meðal eru þeir þrír sem særðust. AFP

Að minnsta kosti þrír særðust í skotárás í suðurhluta Stokkhólms í gærkvöldi. Lögreglu barst tilkynning laust eftir klukkan ellefu um að skotbardagi hafi brotist út í hverfinu Bagarmossen í suðurhluta borgarinnar.

Í frétt sænska ríkisútvarpsins kemur fram að hópur manna með byssur á lofti hafi sést á nokkrum stöðum í hverfinu. Líklegt er að um uppgjör tveggja glæpagengja sé að ræða. Alls voru sjö manns handteknir, þeirra á meðal eru þeir þrír sem særðust. Tveir voru skotnir í fótinn en sá þriðji var illa leikinn eftir barsmíðar en þó ekki í lífshættu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Rannsókn málsins stendur yfir og leitar lögregla að fleiri grunuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert