Líkir Brexit við tilhugalíf broddgalta

Jean-Claude Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, …
Jean-Claude Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafa farið fyrir Brexit-viðræðum í Salsburg síðustu tvo daga. AFP

Samskipti milli ráðamanna Evrópusambandsins og Bretland hefur verið þyrnum stráð en Jean-Clau­de Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, seg­ir að samningaviðræður um útgöngu Breta úr sambandinu séu nú farnar að minna á tilhugalíf tveggja broddgalta.

„Við erum ekki í stríði við Bretland,“ sagði Juncker í samtali við austurríska miðilinn Die Presse, degi eftir að Don­ald Tusk, for­seti leiðtogaráðs Evr­ópu­sam­bands­ins, greindi frá því að leiðtog­ar ESB telji að hinn svo­kallaði Chequ­ers-samn­ing­ur Breta um út­göngu þeirra úr sam­band­inu, myndi grafa und­an hinum sam­eig­in­lega markaði ESB.

Tveggja daga viðræðum um útgöngu Breta úr ESB lauk í aust­ur­rísku borg­inni Sals­burg í gær. Ekki hef­ur náðst sam­komu­lag um hvernig staðið verður að milli­ríkjaviðskipt­um milli Bret­lands og ríkja ESB.

„Við þurfum að fara varlega, eins og tveir broddgeltir sem elska hvor annan,“ sagði Juncker og bætti við að samningsaðilar þyrftu að fara gætilega til að forðast „skrámur.“ Hann telur það fullvíst að samningsaðilar séu að færast nær hvor öðrum en að ágrein­ing­ur væri enn mik­ill varðandi írsku landa­mær­in.

„Það er einnig á kristaltæru að það er ekki mögulegt að yfirgefa Evrópusambandið en halda á sama tíma í þau réttindi sem fylgja sambandinu. Brexit er Brexit,“ sagði Juncker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert