„Ég á hræðilegt leyndamál“

Fyrrverandi nemendur Holton-Arms, sem var skóli Ford í Maryland, afhenda …
Fyrrverandi nemendur Holton-Arms, sem var skóli Ford í Maryland, afhenda dómaranefndinni stuðningsyfirlýsingu við Ford. AFP

„Ég á hræðilegt leyndamál,“ sagði Christine Blasey Ford við eiginmann sinn Russell Ford þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um dómaraefni sitt til hæstaréttar. „Hvað á ég að gera við að gera við þetta leyndarmál,“ rifjar Russell Ford upp að kona sín hafi sagt.

Nafn Brett M. Kavanaugh var fyrst nefnt sem dómaraefni þegar hæstaréttardómarinn Antonin Scalia lést árið 2016. Þegar Trump tilefndi hins vegar Neil M. Gorsuch andaði Ford léttara. Þegar hæstaréttardómarinn Anthony M. Kennedy tilkynnti hins vegar að hann hygðist láta af embætti vöknuðu áhyggjurnar á ný.

Í augum margra var Kavanaugh virtur lögfræðingur, en í huga Ford var hann táningurinn sem réðist á hana í unglingasamkvæmi.

Brett Kavanaugh hefur neitað ásökununum.
Brett Kavanaugh hefur neitað ásökununum. AFP

„Ég geti ekki búið í landi þar sem hann er hæstaréttardómari“

Washington Post segir Ford þegar hafa flutt fjarri efnamannahverfinu Maryland þar sem hún ólst upp og þar sem Kavanaugh, í fé­lagi við ann­an ung­an mann, rak hana inn í svefn­her­bergi í ung­linga­sam­kvæmi. Þeir voru báðir mjög ölvaðir og fé­lag­inn horfði á meðan Kav­an­augh reyndi að fá sínu fram í rúmi í her­berg­inu, þuklað á henni og mis­notað.

Allt í einu reyndist Ford hins vegar ekki nóg að hafa flutt alla leið til Kaliforníu og hefur Washington Post eftir Russell Ford að hún hafi hugleitt að flytja úr landi, jafnvel til annarrar heimsálfu. Þannig hafi hún m.a. kannað hvort Nýja Sjáland kæmi til greina.

„Hún var alveg, ég geti ekki tekið á þessu. Ef hann verður tilnefndur þá verð ég að flytja til annars lands. Ég get ekki búið í landi þar sem hann er hæstaréttardómari,“ rifjar maður hennar upp.

Segir hann að svo langt hafi Ford verið tilbúin að ganga til að forðast þessar æskuminningar. Minningar sem hún hafði til þessa aðeins rætt í sálfræðimeðferð og við eiginmann sinn, sem framan af vissi þó ekki hver árásarmaðurinn var.

Nú þegar Ford íhugar að bera vitni fyrir dóm­ara­nefnd banda­rísku öld­unga­deild­ar­inn­ar sætir hún árásum á samfélagsmiðlum og af Trump sjálfum. Henni hafa borist líflátshótanir og brotist var inn í tölvupóst hennar.

Fjölskyldan aðskilin vegna hótana

Russel Ford minnist dagsins sem Ford kom fram með ásökun sína og hvernig hann útskýrði hana fyrir börnum þeirra. „ég sagði að mamma hefði þurft að segja frá dómaraefni til hæstaréttar og að við gætum ekki dvalið heima hjá okkur lengur,“ segir hann.

Fjöskyldan var aðskilin um nokkurra daga skeið. Foreldrarnir dvöldu á hóteli en börnin hjá vinum. Þau eru nú að skoða að fá öryggiþjónustu til að fylgja börnunum í skólann.

Þegar Ford fundaði með FBI á föstudag gagnrýndu andstæðingar hennar ástæðurnar fyrir því að hún kom ekki fram fyrr en nú. Af hverju beið hún svona lengi var spurt, m.a. af forsetanum á Twitter. Sagði for­set­inn að ef hin meinta árás hefði „verið jafn slæm og hún sagði“ að þá hefði Ford, eða for­eldr­ar henn­ar lagt fram kæru.

Er árásin átti sér stað fannst Ford hins vegar nauðsynlegt að enginn vissi hvað hefði gerst —að enginn vissi að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri árás. Strax og færið bauðst fluttu hún þó á brott frá Maryland og hefur aldrei snúið aftur.

„Ég hef lifað með þessu alla mína ævi,“ sagði Ford í viðtali við Washington Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert