Lögreglustjóri segir „ástandið alvarlegt“

Tønnes segir lögreglu vinna út frá þeirri kenningu að skotárás­in …
Tønnes segir lögreglu vinna út frá þeirri kenningu að skotárás­in teng­ist átök­um á milli glæpa­gengja. Vefur lögreglunnar

Lögreglustjórinn í Kaupmannahöfn, Anne Tønnes, segir „ástandið alvarlegt“ eftir að þrír særðust í skotárás á Norðurbrú í Kaupmannahöfn í gærkvöldið. Hún hvatti íbúa engu að síður til að halda daglegum venjum sínum.

Þrír urðu fyr­ir skot­um í skotárás á Norður­brú í Kaup­manna­höfn í gærkvöldi og er ástand þeirra nú stöðugt að sögn danska ríkisútvarpsins.

Tønnes segir lögreglu vinna út frá þeirri kenningu að skotárás­in teng­ist átök­um á milli glæpa­gengja. „Við teljum að þetta sé hópur sem hefur klofnað í tvennt og sem nú deilir innbyrðis,“ bætti hún við. Lögreglustjórinn vildi ekki nefna hvaða glæpahóp lögregla teldi um að ræða, en danska ríkisútvarpið DR segir að samkvæmt sínum heimildum sé þetta hópur sem kallar sig Brothas.

Tveir þeirra sem særðust eru á þrítugsaldri og einn er 19 ára, en að sögn lögreglu er árásin talin hafa beinst gegn þessum 19 ára og öðrum hinna mannanna.

Vitni að árás­inni sögðu í sam­tali við DR að um sjö til tólf skot­um hafi verið hleypt af og mik­il skelf­ing hafi gripið um sig meðal fólks.

„Þetta er fullkomlega óásættanlegt,“ sagði Tønnes um að skotum væri hleypt af á götum Kaupmannahafnar, en þetta er í áttunda skipti sem slíkt gerist sl. viku og hafa sjö orðið fyrir skotum á þeim tíma.

„Ég get vel skilið að íbúar á Norðurbrú upplifi sig öryggislausa,“ sagði Tønnes. „Ég vil hins vegar fullvissa þá um að við gerum allt sem á okkar valdi er til að tryggja öryggi þeirra og umhverfis þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert