Systkini þingmanns stinga hann í bakið

Paul Gosar er líklega ekki vinsælasti maðurinn í fjölskylduboðunum.
Paul Gosar er líklega ekki vinsælasti maðurinn í fjölskylduboðunum. Mynd/Skjáskot af vef BBC

Paul Gosar, þingmaður Repúblikanaflokksins í Arisona í Bandaríkjunum, hyggst reyna að ná endurkjöri í þingkosninum í nóvember, en hann tilheyrir mjög íhaldsömum armi flokksins. Systkini hans sex, sem óttast um framtíð sína, hafa tekið málin í sínar hendur hafa nú stillt sér á bak við sinn frambjóðanda í sjónvarpsauglýsingu sem vakið hefur töluverða athygli. Kannski ekki síst fyrir þær sakir að frambjóðandinn er ekki bróðir þeirra, heldur mótframbjóðandi hans demókratinn David Brill. BBC greinir frá.

Það hljómar kannski gróft en lítur í raun enn verr út í sjónvarpi, því til að gera auglýsinguna áhrifameiri þá kynna systkinin sig ekki fyrr en í lokin. Þau láta í fyrstu líta út fyrir að þau séu venjulegir íbúar Arisona.

Auglýsingin hefst á því að Grace, ein af systkinunum sem starfar sem læknir, segir: „Þingmaðurinn Paul Gosar hefur ekki gert neitt til að styðja við dreifbýli í Arisona.“ Við tekur lögfræðingurinn David: „Paul gerir algjörlega ekki neitt fyrir sitt fylki.“

Jennifer, starfandi túlkur, er sammála: „Ef fólkið í Arisona skipti hann máli, þá berðist hann fyrir félagslegu öryggi og betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu.“

Þannig heldur auglýsingin áfram þar til Tim endar með rúsínunni í pylsuendanum. „Hann hlustar ekki á þig og hann ber hag þinn ekki fyrir brjósti. Ég heiti Tim Gosar.“



Þrátt fyrir að auglýsing systkinanna virðist sem grimmileg árás á bróðurinn þá er útspil þeirra ekki alveg óviðbúið, en Paul Gosar þykir mjög umdeildur. Hann komst til dæmis í fréttirnar eftir fjöldafund hvítra hægri öfgamanna í Charlottesville í Virginu í ágúst á síðasta ári. Þá sagði hann fundinn vera skipulagðan af vinstri mönnum til að grafa undan Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Þá sniðgekk hann ræðu Frans páfa í þinginu árið 2015 og gagnrýndi hann fyrir að styðja hugmyndir um loftslagsbreytingar. Sagði það vera vafasöm vísindi sem notuð væru í þeim tilgangi að vekja upp sektarkennd hjá fólki og hrekja það yfir á vinstri væng stjórnmálanna.

Systkini hans hafa áður lýst áhyggjum af skoðunum bróður síns í fjölmiðlum, en yfirlýsingar Paul um fundinn í Charlottesville sendu þau opið bréf til fréttamiðilsins Daily Miner. Sögðu þau ekki auðvelt að stíga svona fram en hann hefði neytt þau til þess með svikum og gyðingahatri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert