Tala látinna í Tansaníu hækkar enn

Byrjað var að bera hina látnu til grafar í dag.
Byrjað var að bera hina látnu til grafar í dag. AFP

Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Tansaníu vegna ferjuslyss á Viktoríuvatni á fimmtudag í nágrenni Ukara-eyju. Alls hafa 224 fundist látnir, þar af 27 börn. 41 komst lífs af, en í gær fannst karlmaður á lífi sem hafði komist af í loftrými sem myndaðist. AFP-fréttastofan greinir frá.

Byrjað var að bera hina látnu til grafar í dag á Ukara, þar sem ferjan átti að koma til hafnar á fimmtudag, og lýsti forsætisráðherra landsins, Kassim Majaliwa, yfir þjóðarsorg við athöfnina. Búið var að bera kennsl á alla þá sem jarðsettir voru í dag, en eftir á að bera kennsl á fjölda líka.

Majaliwa sagði jarðneskar leifar þeirra verða jarðsettar síðar, eða þeim komið í hendur ættingja sem óskuðu eftir því. Þá yrði byggt minnismerki á eyjunni.

Ekki eru bundnar miklar vonir við að fleiri finnist á lífi en forsætisráðherrann sagði að kafarar og björgunarlið myndu halda leitinni áfram á þeim stað sem ferjan sökk.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert