Sjóræningjar rændu 12 manna áhöfn

Sjóránum hefur fjölgað undan ströndum Nígeríu á síðustu árum.
Sjóránum hefur fjölgað undan ströndum Nígeríu á síðustu árum.

Sjóræningjar hafa rænt 12 manna áhöfn á svissnesku flutningaskipi og halda henni nú í gíslingu. Samkvæmt skipafélaginu sem á skipið var það á leið frá Lagos til Port Harcourt með hveiti þegar ráðist var á það á laugardaginn. BBC greinir frá.

Sjóræningjarnir notuðu langa stiga til að komast um borð í skipið og byrjuðu á því að eyðileggja fjarskiptabúnað. 19 manna áhöfn var um borð en 12 voru teknir í gíslingu. Enginn úr áhöfninni er svissneskur ríkisborgari en fjölskyldum þeirra hefur verið greint frá stöðunni, samkvæmt upplýsingum frá skipafélaginu.

Sérfræðingar í gíslatöku eru á leið á staðinn í þeirri von að leysa megi áhöfnina úr haldi sjóræningjanna hratt og örugglega.

Mannrán eru algeng í Nígeríu, og er þá aðallega verið að ræna útlendingum og þekktum Nígeríumönnum. Gíslatökum hefur fjölgað undan ströndum Nígeríu síðustu ár og svo virðist sem fleira fólki sé haldið lengur en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert