Cosby gæti fengið 30 ára dóm

Bill Cosby í apríl eftir að hann var fundinn sekur.
Bill Cosby í apríl eftir að hann var fundinn sekur. AFP

Bandaríski leikarinn Bill Cosby snýr aftur í réttarsal í Pennsylvaníu í dag en dæmt verður í máli hans í þessari viku. Hann á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi, fyrir að hafa byrlað Andreu Constand lyf og misnotað hana kynferðislega á heimili sínu í borginni Fíladelfíu árið 2004.

Cosby, sem er 81 árs, var fundinn sekur í apríl síðastliðnum í þremur ákæruliðum og er hæsta refsingin fyrir hvern og einn þeirra tíu ára fangelsi.

Saksóknarar munu fara fram á að Cosby verði fluttur beint í fangelsi en lögmenn hans munu líklega biðja um að hann verði áfram í stofufangelsi þangað til útkoma fæst úr mögulegum áfrýjunum, að sögn vefsíðunnar TMZ.

Einnig er líklegt að lögmenn hans óski eftir því að dómurinn yfir honum verði mildaður vegna aldurs hans og heilsufars en Cosby kveðst hafa misst sjónina.

Lokaákvörðunin verður í höndum dómarans Steven O´Neill sem mun kveða upp dóminn. Málsmeðferðin mun líklega taka tvo daga.

Bill Cosby í apríl síðastliðnum.
Bill Cosby í apríl síðastliðnum. AFP

Um 60 konur, margar þeirra upprennandi leikkonur og fyrirsætur á sínum tíma, hafa sakað Cosby um kynferðislegt ofbeldi á undanförnum fjórum áratugum.

Eina málið sem fór alla leið fyrir dómstóla og var ekki fyrnt er mál Constand, fyrrverandi körfuboltakonu og starfsmanns Temple-háskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert