Hjálparstarf á Miðjarðarhafi í óvissu

Björgunarskipið Aquarius að störfum á Miðjarðarhafi.
Björgunarskipið Aquarius að störfum á Miðjarðarhafi. AFP

Björgunarskipið Aquarius, sem hjálparsamtökin Læknar án landamæra og SOS Mediterranee hafa notað við að bjarga hælisleitendum í sjávarháska á Miðjarðarhafinu, hefur misst skráningu sína og er framtíð björgunarstarfsins því í mikilli óvissu.

Aquarius hefur undanfarinn mánuð siglt undir fána Panama, en stjórnvöld þar í landi synjuðu nýlega umsókn um áframhaldandi skráningu í Panama og segja forsvarsmenn skipsins þetta gert vegna þrýstings frá ítölskum stjórnvöldum.

Þegar Aquarius kemur næst til hafnar verður skipið að fjarlægja fána Panama og getur ekki haldið út á ný án þess að hafa fengið skráningu annars staðar. Aquarius er eitt síðasta björgunarskipið sem hjálparsamtök halda úti á siglingaleiðinni milli Líbýu og Evrópu.

Segja skipið „pólitískan vanda“

Yfirvöld í Panama hafa sagt skipið vera „pólitískan vanda“ fyrir stjórnvöld og að ítölsk stjórnvöld hafi hvatt þau til að grípa „strax til aðgerða“ gegn því.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, sem hefur lýst björgunarskipinu sem „ferjuþjónustu“ fyrir hælisleitendur, neitar því að ítölsk stjórnvöld beiti stjórnvöld í Panama þrýstingi.

Hann hefur hins vegar ítrekað átt í deilum við forsvarsmenn Aquarius og neitaði m.a. skipinu í síðasta mánuði um að leggja á bryggju á Sikiley með 150 hælisleitendur um borð.

Að sögn Sameinuðu þjóðanna hafa rúmlega 1.700 hælisleitendur farist við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu það sem af er ári.

Aquarius hefur starfað á Miðjarðarhafi frá því í febrúar 2016. Skipið sigldi undir fána Gíbraltar allt þar til í ágúst á þessu ári, þegar það missti skráninguna og var þá skráð í Panama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert