Lifði af 49 daga á rúmsjó í kofa á fleka

Rompong-fiskikofinn sem Adilang dvaldi á 49 daga á rúmsjó.
Rompong-fiskikofinn sem Adilang dvaldi á 49 daga á rúmsjó. Ljósmynd/Facebook-síða indónesísku ræðismannsskrifstofunnar í Osaka

Indónesískur unglingur lifði af 49 daga dvöl á rúmsjó, í fiskikofa á fleka áður en honum var bjargað um borð í skip og komið heim, að því er Guardian greinir frá.

Aldi Novel Adilang, 19 ára frá Sulawesi, var við vinnu á svonefndum rompong-fiskikofa um 125 km frá landi þegar veðurofsi hrakti hann út á rúmsjó.

Starf Adilangs í rompong-kofanum fólst í því að kveikja ljós sem löðuðu fiska að gildrum og vikulega kom síðan einhver frá útgerðinni tæmdi gildrurnar og færði honum matar-, vatns- og eldsneytisbirgðir.

Kofinn, sem er á fleka sem festur er við sjávarbotnin með akkeri, barst hins vegar á haf út í miklum vindum í júlí og Adilang með. Hann var eingöngu með nokkurra daga matarbirgðir um borð, en lifði dvölina af með því að veiða sér fisk til matar og elda hann með því að brenna spýtur úr kofanum og sigta sjóinn í gegnum föt sín áður en hann drakk hann til að draga úr saltmagninu.

Indónesíski ræðismaðurinn í Osaka í Japan segir 10 skip hið minnsta hafa siglt fram hjá Adilang áður en skipið MV Arpeggio, sem siglir undir fána Panama, bjargaði honum úti fyrir Gvam einum og hálfum mánuði eftir að festingin slitnaði.

„Í hvert skipti sem hann sá stórt skip þá varð hann vongóður, en meira en 10 skip höfðu siglt fram hjá honum án þess að stoppa eða sjá hann,“ sagði Fajar Firdaus, starfsmaður ræðismannsskrifstofunnar. Eftir að hafa bjargað Adilang tóku stjórnendur skipsins hann með sér til Japan, þangað sem skipið var á leiðinni, og komu honum á skrifstofu indónesíska ræðismannsins.

Í samtali við fréttavefinn Tribun Manado sagðist Adilang hafa talið að hann myndi deyja þarna úti. Á einum tímapunkti hafi sjálfsvígshugsanir sótt að honum og hann hafi hugleitt að stökkva í sjóinn. Þá hefði hann hins vegar minnst orða foreldra sinna um mátt bænarinnar.

Hann er nú kominn aftur heim til Mandao og er að sögn ræðismannsskrifstofunnar við góða heilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert