Flestir vilja fríverslunarsamning

AFP

Flestir Bretar vilja víðtækan fríverslunarsamning við Evrópusambandið, eftir að Bretland hefur sagt skilið við sambandið, af þeim sem taka afstöðu til helstu leiða sem rætt hefur verið um samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins BMG.

Fram kemur á fréttavefnum Huffington Post að 22% vilji fríverslunarsamning í anda fríverslunarsamnings Kanada við Evrópusambandið og 19% vilji yfirgefa sambandið án þess að gera sérstakan samning umfram reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Sextán prósent vilja að Bretland verði áfram innan Evrópusambandsins, 11% vilja að landið verði aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) utan sambandsins líkt og Noregur og Ísland og önnur 11% styðja Chequers-tillögu Theresu May forsætisráðherra.

Skoðanakönnunin er áfall fyrir May, samkvæmt fréttinni, sem hefur barist fyrir því að Chequers-tillaga hennar nái fram að ganga. Tillagan hefur mætt harðri andstöðu í Bretlandi og þá hafa forystumenn Evrópusambandsins formlega hafnað henni.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert