„Þess vegna sagði ég ekki frá“

Padma Lakshmi.
Padma Lakshmi. AFP

Bandaríski rithöfundurinn og  sjónvarpsþáttastjórnandinn Padma Lakshmi skrifar grein í New York Times í dag þar sem hún útskýrir hvers vegna hún hafi þagað um að hafa verið nauðgað þegar hún var unglingur. Greinin er birt á sama tíma og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, efast um sannleiksgildi ásakana tveggja kvenna á hendur Brett Kavanaugh dómara.

Lakshmi, sem er 48 ára gömul, segir í greininni að henni hafi verið nauðgað fyrir meira en 30 árum. Hún lýsir því hvernig hún hafi upplifað það sem svo að árásin hafi verið henni að kenna og hún skilji vel hvers vegna konur þegja oft um kynferðislegt ofbeldi sem þær verða fyrir.

Ásakanir á hendur Kavanaugh, sem Trump vill að verði næsti dómari við Hæstarétt, ná aftur til níunda áratugarins. 

Christine Blasey Ford, sem fyrst steig fram og ásakaði  Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi, mun bera vitni fyrir nefnd á vegum öldungadeildarinnar síðar í vikunni.

Lakshmi segir í greininni: „Trump forseti tísti að ef það sem dr. Ford segði væri rétt hvers vegna hafi hún ekki lagt fram kæru fyrir löngu. En ég skil hvers vegna báðar konurnar héldu þessum upplýsingum fyrir sig í svo mörg ár án þess að blanda lögreglu inn í málið. Í mörg ár gerði ég það sama,“ skrifar Lakshmi.

Hún greinir frá því að hún hafi átt í sambandi við mann þegar hún var enn unglingur. Þau hafi farið heim til hans þar sem hún sofnaði en vaknað við að hann var ofan á henni. „Ég spurði hvað ertu að gera? Hann svaraði að þetta yrði bara vont í smá tíma. Ekki gera þetta, öskraði ég.“

Hann keyrði hana síðar heim og hún segist hafa verið í áfalli. „Ég sagði ekki frá. Ekki mömmu minni, ekki vinum og alls ekki lögreglunni,“ segir Lakshmi í greininni. Hún lýsir því hvernig henni hafi farið að finnast eins og þetta væri henni að kenna. „Við áttum ekki til orð yfir nauðganir kærasta á níunda áratugnum. Ég ímyndaði mér að fullorðna fólkið myndi spyrja: Hvað í fjáranum varstu að gera í íbúðinni hans?“

Hún tekur fram í greininni að hún hafi sjálf engan persónulegan hag af því að greina frá þessu núna, 32 árum síðar, annað en að það sé mjög slæm þróun ef það verður farið að ætlast til þess að þú greinir frá kynferðislegu ofbeldi innan einhverra tímamarka líkt og Trump vilji að verði.

Greinin í heild

 

 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert