Verðmætt viskí selt á útsöluverði

Fjörutíu og átta heppnir Svíar náðu að kaupa flösku af …
Fjörutíu og átta heppnir Svíar náðu að kaupa flösku af fágætu viskíi langt undir markaðsverði. Wikimedia Commons/Christian Koehn

Viskíþyrstir Svíar duttu í lukkupottinn á dögunum, er þeim gafst kostur á kaupa fágætt skoskt viskí á verði sem nam einungis fimmtánda hluta markaðsvirðis viskísins í áfengisverslun sænska ríkisins, Systembolaget.

Um er að ræða 14 ára gamalt Macallan-viskí, en markaðsvirði einnar flösku af viskíinu er talið vera rúmar 600.000 íslenskar krónur. Systembolaget bauð hins vegar 48 flöskur af þessum rándýra drykk til sölu á um fjörutíu þúsund krónur íslenskar, eða um tæpar 3.000 sænskar krónur, samkvæmt frétt sænska miðilsins The Local.

Í Svíþjóð, rétt eins og á Íslandi, er ríkið með einkarétt á sölu áfengis. Áfengisverð er almennt hærra en í flestum öðrum Evrópulöndum, en þó kemur fyrir að fágætt áfengi kom í hillurnar á ótrúlega góðu verði.

Ástæðan fyrir því, samkvæmt talsmanni Systembolaget, er sú að fyrirtækinu er óheimilt að leggja meira en 17,5% og fimm sænskar krónur að auki, á innkaupaverð hverrar flösku.

„Það er sama álagning óháð því hvort um er að ræða flösku af sænsku vodka eða dýrri viskíflösku,“ segir Lennart Agén, talsmaður Systembolaget, í samtali við The Local.

„Við erum með lægri álagningu en margir aðrir endursöluaðilar,“ bætti Agén við og sagði að fyrir þá sem hafi smekk fyrir dýru áfengi væri þetta einn af kostunum við það að hafa áfengisverslun Svía á forræði ríkisins.

Hann sagðist einnig vonast til þess að þeir sem hefðu keypt flöskurnar 48 myndu drekka þær sjálfir, í stað þess að selja þær áfram og hagnast vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert