Sex farast í skyndiflóðum í Frakklandi

Slökkviliðsmaðu aðstoðar hér ungmenni við að komast á brott.
Slökkviliðsmaðu aðstoðar hér ungmenni við að komast á brott. AFP

Sex manns hið minnsta fórust í skyndiflóðum í Aude-héraðinu í suðvesturhluta Frakklands. Héraðsyfirvöld segja nokkurra mánaða úrkomu hafa fallið á nokkrum klukkutímum í nótt með þeim afleiðingum að vegir eru nú víða ófærir, að því er BBC greinir frá.

Sjónvarpsstöðin BFMTV segir ána Aude hafa borið konu á brott með sér. Héraðsstjóri Aude, Alain Thirion, segir að víða séu íbúar strandaglópar á þökum húsa og að flytja þurfi þá loftleiðina á brott þar sem of hættulegt sé að nota báta til verksins.

Þá slasaðist einn er hús hrundi í Cuxac-sveitarfélaginu.

íbúar í Villegailhenc virða hér fyrir sér afleiðingar flóðanna sem …
íbúar í Villegailhenc virða hér fyrir sér afleiðingar flóðanna sem eru þau verstu í Aude í rúm 100 ár. AFP

Íbúar á þeim svæðum sem urðu hvað verst fyrir barðinu á flóðunum hafa verið hvattir til að halda sig innan dyra og hafa almannavarnir og yfirvöld á svæðinu sent frá sér rauða viðvörun vegna málsins.

BBC segir þetta verstu flóð sem orðið hafi í Aude í rúm 100 ár.

Þyrla er hér notuð til að koma fólki á brott …
Þyrla er hér notuð til að koma fólki á brott frá Carcassonne. AFP

Í  sveitarfélaginu Trèbes náði flóðavatnið allt að sjö metra hæð. Allir vegir norður af Carcassone eru lokaðir og það sama gildir um skóla á svæðinu. Þá hrundi brú í Villegailhenc og bar straumurinn hana á brott með sér.

Appelsínugul viðvörun hefur þá verið gefin út í nágrannahéruðunum Aveyron, Haute-Garonne, Hérault, austurhluta Pýreneafjalla og Tarn vegna flóðahættu.

Björgunarsveitarmenn aðstoða hér fólk við að komast á brott.
Björgunarsveitarmenn aðstoða hér fólk við að komast á brott. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert