Helmingur ríkisstjórnarinnar konur

Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu.
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu. AFP

Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, hefur fækkað í ríkisstjórnarliði sínu og í fyrsta skipti er helmingur stjórnarinnar nú skipaður konum.

Tuttugu ráðherrar eru í stjórninni og eru konur í nokkrum helstu ráðuneytunum, m.a. hinu nýja friðarráðuneyti sem og í ráðuneytum viðskipta, iðnaðar og varnarmála.

Aisha Mohammed, ráðherra þjóðaröryggismála, er fyrsta konan til að gegna því embætti. Hún var áður forseti þingsins. Áður voru 28 ráðherrar í ríkisstjórninni og þar af aðeins fimm konur.

Abiy hefur unnið að ýmsum umbótum frá því að hann tók við sem forsætisráðherra í apríl. Fram að því hafði mikil ólga verið í landinu sem leiddi að lokum til þess að fyrirrennari hans sagði af sér. 

Meðal þess sem forsætisráðherrann hefur unnið að er að koma á friði við nágrannríkið Erítreu, að leysa pólitíska fanga úr haldi, bjóða hópa sem hafði verið úthýst velkomna til baka og að áforma einkavæðingu margra fyrirtækja.

Abiy er 42 ára. Þó að hann hafi gert það að yfirlýstu markmiði sínu að lægja öldur óeirða sem m.a. eru tengdar ólíkum þjóðarbrotum sem landið byggja, hafa átökin haldið áfram, fyrst og fremst í suðurhluta Eþíópíu. Þaðan hefur um milljón manna lagt á flótta frá því að átökin blossuðu upp árið 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert