Mistök leiddu til stuðnings þingmanna

Þingmaðurinn Pauline Hanson lagði fram tillöguna.
Þingmaðurinn Pauline Hanson lagði fram tillöguna. AFP

Ríkisstjórn Ástralíu segir að mistök hafi leitt til þess að 23 þingmenn greiddu atkvæði um þingsályktunartillögu þar sem m.a. kemur fram að það sé í lagi að vera hvítur. Pauline Hanson, leiðtogi andíslamska flokksins One Nation, Ein þjóð, lagði tillöguna fram. Í henni er rasismi gegn hvítum einnig fordæmdur. Atkvæðagreiðsla um tillöguna fór þannig að 31 þingmaður greiddi atkvæði á móti henni en 28 með. 

Andstæðingar tillögunnar hafa bent á að frasinn „það er í lagi að vera hvítur“ (Its OK to be white) tengist orðræðu hvítra öfgahópa.

Þingmaðurinn Scott Morrisson segir að stuðningur ríkisstjórnarinnar við tillöguna sé sorglegur. Ríkisstjórnin hefur brugðist við gagnrýni vegna stuðnings margra þingmanna við tillöguna með því að segja að þingmenn hafi misskilið hana vegna „innri framkvæmdarmistaka“.

Einn ráðherra, Christian Porter, skellti skuldinni á tölvupóst sem starfsmenn hans sendu út án hans vitundar. Í honum hafi þingmenn verði hvattir til að styðja tillöguna.

Stjórnarandstaðan blæs á þessar útskýringar meirihlutans og bendir á að tillagan hafi verið á allra vitorði frá því í síðasta mánuði. „Þetta er bara yfirklór og aumingjaleg tilraun ykkar til að bæta fyrir klúðrið,“ segir Penny Wong, leiðtogi Verkamannaflokksins.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert