Sviðsetti andlát og flúði til Frakklands

Kastalann franska keypti maðurinn fyrir þrjár milljónir evra.
Kastalann franska keypti maðurinn fyrir þrjár milljónir evra. Ljósmynd/Franska lögreglan

Úkraínskur maður sem sviðsetti eigin dauða og flúði svo til Frakklands þar sem hann lifði í vellystingum hefur verið handtekinn í nágrenni Dijon í Frakklandi, að því er BBC greinir frá.

Maðurinn er grunaður um alþjóðlega svikastarfsemi og peningaþvætti. Hann var eftirlýstur í Úkraínu, en Europol segir að hald hafi verið lagt á eignir að andvirði um 5,3 milljón dollara við handtöku hans. Í húsleit lögreglu var m.a. lagt hald á kastala, fornbíl og listaverk.  

Nafn mannsins hefur enn ekki verið gefið upp, en í yfirlýsingu sem Europol sendi frá sér segir að franska lögreglan hafi í janúar á þessu ári hafið rannsókn á grunsamlegum peningafærslum í tengslum við kaup fyrirtækis sem skráð var í Lúxemborg á kastalanum. Eigandinn reyndist svo vera Úkraínumaður og í ljós kom að hann var eftirlýstur í heimalandinu vegna gruns um umfangsmikla spillingarstarfsemi.

Honum hafði hins vegar tekist að komast hjá handtöku með því að falsa dánarvottorð sitt, að því er Europol greinir frá. Maðurinn reyndist hins vegar vera sprelllifandi og njóta hins ljúfa lífs í Frakklandi.

Hann hefur nú verið handtekinn ásamt þremur meintum vitorðsmönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert