Tóku sýni úr garði skrifstofunnar

Hópur tyrkneskra rannsóknarlögreglumanna og fulltrúar saksóknara leituðu á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbul í gærkvöldi og nótt. Alls voru þeir átta klukkustundir á skrifstofunni og tóku með sér sýni, svo sem úr mold úr garði byggingarinnar.

Leitin tengist hvarfi blaðamannsins Jamal Khashoggi en ekkert hefur spurst til hans síðan 2. október þegar hann kom á ræðismannsskrifstofuna til þess að sækja gögn í tengslum við fyrirhugað brúðkaup hans og unnustunnar.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, kom til höfuðborgar Sádi-Arabíu, Ríad, í morgun en þar mun hann ræða við Salman konung um hvarf blaðamannsins. Mjög vel var tekið á móti Pompeo af starfsbróður hans, Adel al-Jubeir, og sendiherra Sádi-Arabíu í Washington, Khalid bin Salman, á flugvellinum í morgun að sögn blaðamanns AFP-fréttastofunnar. 

Khashoggi, sem er Sádi-Arabi búsettur í Bandaríkjunum, er harður gagnrýnandi krónprinsins, Mohammed bin Salman, og telja flestir að hann hafi verið drepinn á ræðismannsskrifstofunni.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu heimiluðu tyrknesku lögreglunni að leita á ræðismannsskrifstofunni í gær en tyrknesk yfirvöld saka þau um að standa á bak við morðið á blaðamanninum. Fjölmiðlar hafa greint frá því að Khashoggi hafi látist við yfirheyrslur á ræðismannsskrifstofunni en því neita yfirvöld í Sádi-Arabíu.

Trump sagði í gær eftir að hafa rætt við konung Sádi-Arabíu að jafnvel hafi stjórnlausir morðingjar staðið á bak við morðið á blaðamanninum. Hann veitti ekki frekari upplýsingar um hvers vegna hann teldi þetta núna né heldur lagði hann fram nokkrar sannanir á þessum ummælum sínum.

Hann hafði áður sagt að rannsaka þurfi hvarf blaðamannsins en um leið tekið fram að það muni ekki hafa nein áhrif á vopnaviðskipti ríkjanna sem eru gríðarlega mikil. 

Pompeo mun einnig fara til Tyrklands og ræða við ráðamenn þar um hvarf blaðamannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert