Trump fær sér kók með Lincoln í Hvíta húsinu

Repúblikanaklúbburinn eftir Andy Thomas. Trump er skælbrosandi með kókglas við …
Repúblikanaklúbburinn eftir Andy Thomas. Trump er skælbrosandi með kókglas við hönd með hinum forsetunum. Á myndinni eru auk Trumps þeir Dwight Eisenhower, Richard Nixon, Abraham Lincoln, Theodore Roosevelt, Gerald Ford, Ronald Reagan og Bush-feðgarnir.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur skreytt veggi Hvíta hússins með nýju málverki sem sýnir hann slappa af með hópi forvera sinna á forsetastóli úr röðum repúblikana. Breska dagblaðið Daily Telegraph greinir frá.

Myndin ber heitið Repúblikanaklúbburinn og er verk listamannsins Andy Thomas, og sást nýlega glitta í það í bakgrunni í nýlegu viðtali við forsetann í fréttaskýringaþættinum 60 mínútur.

Trump er grannur og brosandi á myndinni, með kókglas við hönd, en honum sinn til hvorrar handar eru Dwight Eisenhower og Richard Nixon og andspænis honum situr Abraham Lincoln. Einnig má á myndinni sjá Theodore Roosevelt, Gerald Ford, Ronald Reagan og  Bush-feðgana. Allir eru forsetarnir með drykk við höndina og svo virðist sem Lincoln hafi nýlokið við að segja hinum brandara.

Málverkið fékk Trump að gjöf frá Darrell Issa, repúblikanaþingmanni Kaliforníuríkis. Ekki eru allir listgagnrýnendur hrifnir af myndinni og hafa sumir sagt hana „hallærislega“.

Listamaðurinn, sem býr í Missouri, sagði í samtali við Daily Beast að Trump hafi hringt í sig fyrir nokkrum vikum og lýst ánægju sinni með verkið.

Thomas, sem venjulega málar kúrekamyndir, segir forsetann hafa lofað verkið. „Hann sagðist hafa séð fjölda málverka af sér og að hann væri sjaldan hrifinn,“ sagði listamaðurinn.

„Hann sagði: „Ég er ekkert hrifinn af flestum portrettum af mér.“ Og það er rétt hjá honum það er erfitt að mála hann. Það eru til nokkur slæm portrett af honum,“ sagði Thomas og kvað erfiðast að ná brosi Trumps réttu.

Hann vissi hins vegar ekki að myndin hefði ratað upp á vegg í Hvíta húsinu fyrr en hann sá viðtalið í 60 mínútum.

„Ég var himinlifandi. Oft eru gjafir ekki hengdar upp, heldur eru bara settar inn í skáp. Það var verulegu umbun að komast að því að hún hefði verið hengd upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert