Barnaníðingur tekinn af lífi

Zainab var nauðgað og hún myrt í janúar.
Zainab var nauðgað og hún myrt í janúar. AFP

Pakistönsk yfirvöld tóku af lífi mann sem var dæmdur fyrir að hafa nauðgað og myrt sex ára gamla stúlku fyrr á árinu. Maðurinn fékk fjórfaldan dauðadóm við réttarhöldin í febrúar en málið vakti gríðarlega athygli og reiði meðal almennings í landinu.

Sjónvarpsstöðvar birtu myndir úr öryggismyndavélum eftir morðið þar sem litla stúlkan, Zainab Fatima Ameen, sést leiða karlmann skömmu fyrir hvarfið. Talið er að hún hafi verið myrt skömmu síðar. Lögreglan var harðlega gagnrýnd fyrir sinn þátt en afar illa þótti staðið að rannsókn málsins.

Ættingjar Imran Ali komu og sóttu líkið eftir aftökuna.
Ættingjar Imran Ali komu og sóttu líkið eftir aftökuna. AFP

Imran Ali, 24 ára, var handtekinn einhverjum vikum eftir að lík Ameen fannst á ruslahaug í borginni Kasur í janúar. Hann játaði að hafa myrt hana og eins játaði hann á sig árásir á átta börn í borginni, þar af fimm morð. 

„Hann var hengdur í morgun að viðstöddum fangelsisyfirvöldum og föður fórnarlambsins,“ segir embættismaður sem starfar í fangelsinu í Lahore þar sem aftakan fór fram. Lík hans var afhent fjölskyldu hans sem annast útförina. 

Fjölskylda stúlkunnar hafði krafist þess að Ali yrði tekinn af lífi á almannafæri en hæstiréttur Lahore hafnaði því í gær. 

Ameen Ansari, faðir Zainab Fatima Ameen.
Ameen Ansari, faðir Zainab Fatima Ameen. AFP

Faðir Zainab, Ameen Ansari, sagði við fjölmiðla í morgun að hann væri að mestu sáttur við niðurstöðu málsins fyrir utan að hann hefði viljað sjá Ali hengdan á almannafæri. 

Eftir morðið greip um sig mikil reiði meðal almennings í Pakistan og kom til óeirða víða, kveikt var í lögreglustöðvum og heimilum lögreglumanna. Að minnsta kosti tólf nauðganir og morð hafa verið tilkynnt undanfarin tvö ár í Kasur og játaði Ali átta þeirra á sig en fjögur eru enn óleyst. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert