Óléttar konur sýktar af zika-veiru

Zika-veiran smitast með biti moskítóflugna.
Zika-veiran smitast með biti moskítóflugna. AFP

Yfirvöld á Indlandi hafa greint frá því að faraldur zika-veiru geisi í landinu. Áttatíu tilfelli hafa verið tilkynnt frá því í síðasta mánuði og í þeim hópi eru 22 óléttar konur. Tilfellin hafa öll greinst í Rajasthan-ríki í vesturhluta landsins.

Á Indlandi er moskítóflugan, sem ber zika-veiruna, útbreidd. Fyrst var greint frá því í janúar árið 2017 að maður hefði smitast af veirunni og var það þá í Gujarat-ríki.

Zika-veiran hóf að gera usla árið 2015 og hafa yfir 1,5 milljónir manna í meira en sjötíu löndum sýkst síðan þá. Flestir hafa sýkst í Suður-Ameríku.

Óléttum konum stafar einna mest hætta af veirunni og eru dæmi um að börn þeirra hafi hlotið heilaskaða. 

Í Jaipur, höfuðstað Rajasthan-ríkis, ganga nú 330 sérsveitir um og úða skordýraeitri inni á heimilum um 440 þúsund íbúa sem eru undir eftirliti vegna hættu á að smitast.

Heilbrigðisráðherra Indlands, J. P. Nadda, segir að allir þurfi að vera á tánum og að öllum steinum verði velt við til að tryggja öryggi fólks.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að bóluefni gegn zika-veirunni verði líklega ekki fáanlegt fyrr en árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert