Hrósar þingmanni sem réðst á blaðamann

Donald Trump á kosningafundinum í gær.
Donald Trump á kosningafundinum í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hrósaði Greg Gianforte, þingmanni Repúblikanaflokksins, en hann réðst á blaðamann Guardian í fyrra. Gianforte skellti blaðamanninum í gólfið en Trump kallaði hann „sinn mann“.

„Greg er klár,“ sagði Trump á kosningafundi í Montana í gær. „Ég myndi hins vegar aldrei glíma við hann.

Allir sem geta skellt einhverjum í gólfið eru mínir menn,“ sagði Trump og uppskar mikinn hlátur og fagnaðarlæti frá stuðningsfólki sínu.

Gianforte játaði að hafa ráðist á blaðamann Guardian í aðdraganda kosninga í Montana í fyrra. Hann var dæmdur til að greiða 385 Bandaríkjadali í sekt, sinna 40 klukkustunda samfélagsþjónustu og fara í 20 klukkustunda reiðistjórnunarnámskeið.

Nefnd til verndar blaðamönnum (CPJ) og Guardian krefjast þess að Trump biðjist afsökunar á orðum sínum. 

Ben Jacobs, blaðamaðurinn sem Gianforte réðst á, ákvað að lögsækja hann ekki gegn því skilyrði að þingmaðurinn skrifaði afsökunarbeiðni og gæfi 50 þúsund dali til CPJ.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert