Kom ekki nálægt kosningunum

Sergei Kislyak, fyrrverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.
Sergei Kislyak, fyrrverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. mbl.is/Hjörtur

„Fyrir það fyrsta reyndum við ekki að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Við gerðum það ekki. Ég blandaði mér ekki í neitt sem getur mögulega talist afskipti,“ segir Sergei Kislyak, öldungadeildarþingmaður á rússneska þinginu og fyrrverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, í samtali við mbl.is en nafn hans hefur reglulega komið við sögu í deilum í Bandaríkjunum um meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016.

„Það sem er að gerast í Bandaríkjunum eru innanlandsátök á milli demókrata og repúblikana, jafnvel á milli hluta Repúblikanaflokksins og þeirra eigin forseta, á milli frjálslyndara afla og íhaldssamra og stundum hafa löggæslustofnanir blandast í deilurnar. Ég hef aldrei séð Bandaríkin jafn klofin í andstæðar fylkingar. Ég kom fyrst til Bandaríkjanna á áttunda áratug síðustu aldar og síðan þá hef ég aldrei séð annað eins,“ segir Kislyak ennfremur, en hann er staddur hér á landi vegna ráðstefnunnar Arctic Circle sem fram fer yfir helgina.

Sendiherrann fyrrverandi segir að þessar deilur endurspegli ákveðna pólitíska menningu í Bandaríkjunum. Verið sé einfaldlega að nota Rússland sem verkfæri í þessum innanlandsátökum sem skaðað hefði samskipti landanna sem væri miður enda skipti gott samstarf á milli þeirra miklu. Minnir Kislyak í því sambandi á að Rússland og Bandaríkin séu til dæmis stærstu kjarnorkuveldi heims og eiga bæði fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Öllu fórnað fyrir deilur repúblikana og demókrata

„Við höfum sýnt til þess að við getum unnið saman að erfiðum málum sem eru sameiginleg úrlausnarefni. Öllu þessu er fórnað vegna innanlandsdeilna,“ segir Kislyak og segir þetta til marks um gæði þeirrar pólitísku menningar sem þrífist í Bandaríkjunum í dag sem séu að hans áliti mun minni en áður fyrr. Spurður hvort samskipti ríkjanna hafi batnað eða versnað að hans mati með kjöri Donalds Trump sem Bandaríkjaforseta segir hann:

„Ég er ekki viss um að þau hafi versnað. Þau eru í sömu lægð og þau voru fyrst eftir lok kalda stríðsins. Sennilega hafa þau ekki verið verri áður. En það byrjaði með [Barack] Obama forseta og hefur haldið áfram þannig.“ Spurður um áhuga Bandaríkjanna á aukinni veru bandarísks herliðs á Íslandi segir Kislyak að það og fleira sé til marks um vilja til þess að snúa aftur til þess hugsunarháttar sem hafi ríkt á tímum kalda stríðsins.

„Það er mjög bagalegt. Ég hélt að fólk hefði þolað nóg á tímum kalda stríðsins. Ef snúa á aftur til þeirrar stöðu sem var uppi fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan, þá þýðir það að við höfum glatað þessum aldarfjórðungi þegar kemur að framtíðarsamskiptum okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert