Minnast fórnarlamba „rússneska Columbine“

AFP

Íbúar á Krímskaga minnast í dag 15 nemenda og 5 kennara sem átján ára piltur skaut til bana í tækniskóla í borginni Kerch. Yfir 40 manns særðust í árásinni en árásarmaðurinn tók eigið líf.

Í fjölmiðlum er talað um „rússneska Columbine“ og er þar vísað til fjöldamorðanna í bandaríska framhaldsskólanum Coumbine árið 1999 þar sem tveir fyrrverandi nemendur drápu tólf nemendur skólans og einn kennara. 

AFP

Árásin var gerð af nemanda skólans, Vladislav Roslyakov, á miðvikudag.  Mikill viðbúnaður er vegna minningarathafnarinnar en íbúar borgarinnar Kerch eru 150 þúsund talsins. Hefur öllum götum verið lokað í miðborginni og er mikið blómahaf á aðaltorgi borgarinnar þar sem íbúar hafa komið og lagt blóm til minningar um þá sem létust í árásinni sem er sú skelfilegasta á Krímskaga hingað til.

Af þeim sem lifðu af árásina eru nokkrir mjög alvarlega særðir. Margir þeirra særðust þegar sprengja sprakk í skólanum en við sprenginguna þeyttust málmflísar í allar áttir með skelfilegum afleiðingum.

Einelti, alþjóðavæðing og öfgar

Stúlka, sem var áður kærasta Roslyakov, segir að hann hafi talað um að hefna sín fyrir einelti sem hann varð fyrir. Hann hafi glatað trúnni á fólk þegar bekkjarfélagar hans lögðu hann í einelti fyrir það eitt að vera öðruvísi. Hann hafi ekki viljað lifa lengur. 

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir ástæðu árásarinnar vera alþjóðavæðingu og framhald atburða sem eigi upptök sín í Bandaríkjunum. 

Rússneskir fjölmiðlar hafa birt myndir af Roslyakov þar sem hann er klæddur á svipaðan hátt og Eric Harris sem var annar af fjöldamorðingjunum í Columbine.

Rússneska dagblaðið Kommersant greinir frá því að hann hafi alist upp við fátækt en faðir hans er fatlaður. Móðir hans er vottur Jehova en trúarsamtökin eru bönnuð í Rússlandi þar sem þau eru talin öfgahópur.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert