Öfgamaður látinn laus

Anjem Choudary.
Anjem Choudary. AFP

Öfgafullur breskur klerkur, Anjem Choudary, var látinn laus úr fangelsi í morgun en hann var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi árið 2016 fyrir að hvetja til stuðnings við vígasamtökin Ríki íslams.

Choudary, sem er 51 árs, verður á skilorði þar sem eftir lifir dómsins og gilda strangar reglur um það sem honum er heimilt að gera á þeim tíma. Til að mynda má hann ekki nota tæki sem tengjast netinu nema með heimild frá yfirvöldum og eins er hann í farbanni. Jafnframt má hann aðeins stunda ákveðnar moskur og ræða við fólk þar sem yfirvöld samþykkja. Choudary hefur undanfarin ár afplánað í Belmarsh-fangelsinu skammt frá London en hann er búsettur í Ilford, austur af London.

Choudary var áður yfirmaður Islam4UK eða al-Muhajiroun, en samtökin eru nú bönnuð í Bretlandi. Þau stofnaði hann með Omar Bakri Muhammad og vildu samtökin koma á íslömskum lögum í Bretlandi.

Anjem Choudary.
Anjem Choudary. AFP

Í tvo áratugi tókst þessum fyrrverandi lögmanni að halda sig réttum megin við lögin en hann var einn þekkasti öfga-klerkur Bretlands um árabil.

Meðal þeirra sem öfgavæddust innan Muhajiroun eru sjálfsvígsárásarmennirnir sem drápu 52 í almenningssamgöngukerfi London í júlí 2005 og menn sem drápu hermanninn Lee Rigby í höfuðborginni árið 2013.

Við réttarhöldin 2016 kom fram að Choudary hafði sjónvarpað ræðum á YouTube þar sem hann lýsti Abu Bakr al-Baghdadi sem leiðtoga Ríkis íslams. Choudary og samverkamaður hans, Mohammed Rahman, voru handteknir 25. september 2014. Choudary hafði meðal annars  skipulagt atburð tengdan Osama bin Laden í London árið 2011. 

Í viðtali við AFP árið 2014 hvatti Choudary vestræna blaðamenn, almenna borgara og hermenn í ríkjum múslima til að koma sér þaðan svo hægt væri að koma á saría-lögum þar.

Fyrrverandi yfirmaður hryðjuverkadeildar bresku lögreglunnar, Richard Walton, sagði á sínum tíma að Choudary væri forhertur og hættulegur hryðjuverkamaður sem hefði gríðarleg áhrif á öfgasinnaða íslamista í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert