Óttast um eigið öryggi

Meng Hongwei.
Meng Hongwei. AFP

Eiginkona fyrrverandi forstjóra Interpol, Meng Hongwei, óttast um líf hans og eigið öryggi og sakar ríkisstjórn Kína um miskunnarleysi en Meng var handtekinn nýverið. Hann er afar háttsettur innan kínverska stjórnkerfisins og er aðstoðarráðherra almannaöryggis.

Eiginkona hans, Grace Meng, ræddi við BBC og gagnrýndi kínversk stjórnvöld harðlega sem er afar sjaldgæft að fólk geri. 

„Ég tel að þetta séu pólitískar ofsóknir. Ég er ekki viss um að hann sé á lífi,“ segir hún í viðtalinu sem er tekið í Frakklandi en Meng starfaði í höfuðstöðvum Interpol í Lyon.

Meng Hongwei hvarf í Kína í síðasta mánuði og sagði skyndilega af sér sem forstjóri Interpol, skriflega 7. október. Kínversk yfirvöld greindu frá því sama dag að hann væri til rannsóknar vegna gruns um að hafa þegið mútur.

„Ég segi börnum mínum að pabbi sé í langri viðskiptaferð,“ sagði Grace Meng í viðtalinu. Hún segir að það séu engin takmörk fyrir því hvernig kínversk yfirvöld komi fram við sína andstæðinga. Hún hafi fengið hótanir í síma. „Þeir eru miskunnarlausir. Þeir eru óheiðarlegir,“ segir hún í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert