„Færið okkur Jamal aftur“

Kislakci ræddi við blaðamenn fyrir utan ræðismannsskrifstofuna í dag. Samtök …
Kislakci ræddi við blaðamenn fyrir utan ræðismannsskrifstofuna í dag. Samtök hans krefjast þess að líkið af Khashoggi verði afhent. AFP

Hópur tyrkneskra blaðamanna í Istanbúl krefst þess að öllum þeim sem komu að morðinu á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi með einhverjum hætti verði refsað. AFP-fréttastofan greinir frá.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu viðurkenndu í gær að blaðamaðurinn hefði látist í átökum á ræðismannsskrifstofu Sádi-Araba í Istanbúl, en þá hafði ekki spurst til hans frá því 2. október síðastliðinn. Átján sádiarabískir ríkisborgarar eru sagðir hafa verið handteknir vegna málsins. Þá hafa tveir aðstoðarmenn krónprinsins, Mohammed bin Salman, verið látnir fjúka.

„Við krefjumst ekki bara refsingar yfir þessum átján einstaklingum heldur líka þeim sem fyrirskipuðu morðið,“ segir Turan Kislakci, formaður samtaka tyrkneskra og arabískra fjölmiðlamanna, en Khashoggi var meðlimur í samtökunum.

Khashoggi er sagður hafa látist í átökum á ræðismannsskrifstofunni.
Khashoggi er sagður hafa látist í átökum á ræðismannsskrifstofunni. AFP

Tyrkneska lögreglan hefur ásamt rannsakendum málsins leitað á ræðismannsskrifstofunni og í ræðismannsbústaðnum í Istanbúl, sem og í í skóglendi skammt frá, en lík blaðamannsins hefur ekki fundist.

„Það er aðeins eitt sem skiptir máli akkúrat núna. Færið okkur Jamal aftur. Látið okkur hafa hann svo getum veitt honum útför,“ sagði Kislakci í samtali við blaðamenn fyrir utan ræðismannsskrifstofuna.

„Leyfum öllum heiminum að fylgjast með útför Jamal Khashoggi, sem var drepinn í myrkraherbergi á hræðilegan hátt.“

Tyrkneskir fjölmiðlar hafa greint frá því að til séu hljóðupptökur þar sem heyrist hvar Khashoggi er pyntaður, fingur hans skornir af áður en hann var afhöfðaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert