Fordæma ákæru gegn rússneskri konu

Þingkosningarnar í Bandaríkjunum fara fram 6. nóvember.
Þingkosningarnar í Bandaríkjunum fara fram 6. nóvember. AFP

Rússnesk stjórnvöld fordæma bandarísk stjórnvöld fyrir að ákæra rússneska konu sem gert er að sök að hafa reynt að hafa afskipti af komandi kosningum í Bandaríkjunum. Sergei Ryabkov, staðgengill utanríkisráðherra Rússlands, segir ásakanir bandarískra yfirvalda hafa verið settar fram til þess að beita Rússland harðari viðskiptaþvingunum.

„Bandarísk stjórnvöld eru að búa til ástæður til þess að geta beitt Rússland hörðum refsiaðgerðum í enn eitt skiptið,“ hefur AFP eftir Ryabkov en í yfirlýsingu frá honum segir hann að bandarísk stjórnvöld séu að leika sama leik og fyrir kosningarnar 2016.

Rússneska konan, Yelena Khusyaniova, var ákærð af bandaríska dómsmálaráðuneytinu í gær og er hún fyrsta mannneskjan til að vera ákærð vegna komandi kosninga. Hún er fjármálstjóri eins stærsta tröllabús Rússa, en starfsemi tröllabúa eer að koma skipulega ósannindum eða misvísandi upplýsingum á framfæri á netinu.

Í yfirlýsingu Rússa segir Ryabkov að bandarísk stjórnvöld muni fá harðari andstöðu frá Rússum ætli þeir að leggja sig svo mikið eftir fjandskap. Sakaði hann jafnframt nokkra bandaríska stjórnmálamenn um að reyna að slá pólitískar keilur með skammarlegri og ærumeiðandi baráttu sinni gegn Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert