Halda „háværa“ mótmælagöngu vegna Brexit

Fólk hefur verið hvatt til þess að koma með hunda …
Fólk hefur verið hvatt til þess að koma með hunda sína í gönguna til þess að þeir láti í sér heyra. AFP

Mótmælendur sem krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lokasamning Bretlands vegna útgöngu úr Evrópusambandinu í mars á næsta ári hafa nú safnast saman í London til þess að reyna að hindra yfirvofandi slit landsins úr sambandinu. Lagt er upp með að mótmælagangan verði hávær, formleg samkoma með það að markmiði að sannfæra Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að halda aðra atkvæðagreiðslu um útgönguna. AFP greinir frá.

Skipuleggjendur mótmælagöngunnar hafa jafnvel beðið fólk um að koma með hunda sína til þess að þeir geti gelt með göngunni um miðborg London. Boðskapurinn verður þó alvörugefinn: að það sem var samþykkt árið 2016, útganga úr Evrópusambandinu, yrði ekki samþykkt færi það fyrir þjóðaratkvæði í dag.

Þverpólitíska aflið People's Vote Campaign hefur staðið fyrir fjölda mótmæla …
Þverpólitíska aflið People's Vote Campaign hefur staðið fyrir fjölda mótmæla og kröfuganga vegna Brexit. AFP

Fyrirsvarsmenn mótmælanna segja að þeir hefðu kosið á annan hátt hefðu þeir vitað hinn raunverulega kostnað sem fælist í útgöngunni.

„Það er kominn tími til að hinn þögli og hinn ekki svo þögli meirihluti láti skoðun sína í ljós um Brexit,“ segir and-Brexit baráttukonan Gina Miller í Indipendent blaðinu.

Um ein milljón undirskrifta hafa safnast á undirskriftarlista blaðsins um að bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram áður en kemur að formlegri útgöngu Breta úr sambandinu.

Theresa May hefur hins vegar lýst því yfir að það verði ekki haldin önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. „Þjóðin kaus og þessi ríkisstjórn mun standa við niðurstöðu þeirra,“ sagði May á breska þingingu á miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert