Kona á fótboltavelli leiðir til syndar

Íranskar konur fagna á áhorfendapöllunum í Teheran á vinnáttuleik Írans …
Íranskar konur fagna á áhorfendapöllunum í Teheran á vinnáttuleik Írans og Bólivíu á þriðjudag. AFP

Íranar unnu nauman sigur á Bólivíu, 2:1, í vináttuleik á Azadi-leikvanginum í Teheran á þriðjudag. Viðureign þessi mun ekki fara í sögubækurnar vegna stórkostlegra tilþrifa á leikvellinum. Öllu fréttnæmara var að konur fengu að vera meðal áhorfenda. Reyndar voru aðeins 100 konur í þeim hópi, en hingað til hafa yfirvöld ekki liðið slíkt frjálslyndi.

Það kom líka í ljós daginn eftir leikinn að ekki ríkir sátt um þessa ákvörðun þegar æðsti yfirmaður dómsmála í Íran, Mohammad Jafar Montazeri, lýsti yfir því að ekki ætti að verða nein endurtekning á því að konur fengju að vera á áhorfendapöllum þar sem það gæti „leitt til syndar“.

„Ég mótmæli því að konur séu á Azadi-leikvangi,“ hafði íranska fréttastofan Mehr eftir Montazeri. „Við erum múslimaríki. Við erum múslimar. Við munum taka á hverjum þeim embættismanni, sem vill leyfa konur inni á leikvöngum, sama með hvaða fyrirslætti. Þegar kona fer inn á leikvang og við henni blasa hálfnaktir menn í íþróttafötum og hún sér þá mun það leiða til syndar.“

Knattspyrna nýtur mikilla vinsælda í Íran og má segja að þar rekist á hið veraldlega og geistlega.

Mohammed Reza Pahlavi Íranskeisari var forfallinn áhugamaður um fótbolta. Slakt gengi landsliðsins á sjötta áratugnum varð til þess að hann fór að leggja aukna áherslu á framgang íþróttarinnar. Fótboltavellir fylltust af áhorfendum og þeir sem ekki náðu í miða sátu límdir við sjónvarpsskjái.

Reynt að þurrka fótbolta út

1979 var keisaranum steypt og klerkastjórnin tók við völdum undir forustu Khomeinis erkiklerks. Þurrka átti út merki vestrænnar menningar, Nánast öll skemmtun á almannafæri var bönnuð og skipulögð keppni í fótbolta lagðist af.

Áratug yfir valdatökuna var stofnuð hálfatvinnumannadeild. Áhorfendur streymdu á völlinn og segir Foer frá því að í fyrstu hafi verið reynt að hafa áhrif með því að lauma í stúkurnar útsendurum, sem reyndu að leiða dýrðarsöng til Allah. 

Konum hefur verið bannað að fara á völlinn frá klerkabyltingunni. Í þeim efnum hafa Íranar ekki sérstöðu í múslimaheiminum. Munurinn er þó sá að í Íran höfðu konur þekkt meira frelsi en kynsystur þeirra í löndum á borð við Sádi-Arabíu.

Khomeini erkiklerkur lét undan þrýstingi kvenna 1987 þegar hann gaf út tilskipun eða fatwa þess efnis að konur mættu horfa á fótbolta í sjónvarpi. Enn mættu þær þó ekki fara á völlinn. Þessi málamiðlun dugði, en aðeins um tíma.

Taumlaus gleði á götum úti

Árið 1997 áttu Íranar þess kost að komast á heimsmeistaramótið í knattspyrnu í úrslitaleik gegn Ástralíu. Lengi vel var engu líkara en stjórnvöld hefðu fyrirskipað liðinu að gefa leikinn af ótta við fagnaðarlætin, sem gætu brotist út. Á síðasta korterinu tók liðið við sér, skoraði tvö mörk og náði jafntefli, sem tryggði farseðilinn á HM.

Almenningur streymdi út á götur Teheran, drakk og dansaði við vestræna popptónlist. Konur létu ekki sitt eftir liggja, köstuðu af sér slæðum og höfuðfötum og fögnuðu af engu minna taumleysi en karlarnir. Trúarlögreglan hugðist hemja fagnaðarlætin, en mátti sín einskis.

Klerkastjórnin frestaði heimkomu knattspyrnuhetjanna í þeirri von að sigurvíman yrði runnin af almenningi. Konur voru hvattar til að halda sig fjarri. Stjórnvöld fögnuðu landsliðinu á Azadi-leikvanginum þar sem aðeins körlum hafði verið hleypt að. Þúsundir kvenna óhlýðnuðust boði stjórnvalda og mótmæltu fyrir utan leikvanginn þótt hiti væri undir frostmarki. „Erum við ekki hluti af þessari þjóð? Við viljum líka fagna. Við erum ekki maurar,“ hrópuðu þær.

Brutu sér leið inn á völlinn

Lögreglan hleypti þrjú þúsund konum inn á aflokað svæði á vellinum. Enn voru tvö þúsund konur fyrir utan og nú brutu þær sér leið inn og komu sér fyrir á áhorfendapöllunum. Lögreglan lagði ekki í að beita valdi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og hleypti þeim í gegn.

Rúmum tveimur áratugum síðar er málið enn jafn umdeilt. Spurningin er hvað verður um glufuna sem opnaðist með vináttuleiknum gegn Bólivíu. Birst hafa fréttir um að konur muni einnig fá að vera meðal áhorfenda á heimaleik Persepólis í undanúrslitum meistaradeildar Asíu 23. október. Montazeri hefur varað embættismenn íþróttamála við að slíkt verði ekki látið afskiptalaust.

„Verði þetta endurtekið mun ég fyrirskipa saksóknaranum í Teheran að láta til skarar skríða,“ sagði Montazeri.

Greinin í heild birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert