Ofsóttur af hundraða manna tröllabúi í Ríad

Mótmælendur halda hér á lofti spjöldum með mynd af blaðamanninum …
Mótmælendur halda hér á lofti spjöldum með mynd af blaðamanninum Jamal Khashoggi, en hann var gagnrýninn í garð sádi-arabískra ráðamanna. AFP

Jamal Khashoggi hóf hvern morgun á að skoða símann sinn til að sjá hvaða árásir hefðu verið gerðar á hann meðan hann svaf. Við honum blöstu jafnan verk hers nettrölla á Twitter, sem hafði verið skipað að ráðast á hann og aðra sádi-arabíska áhrifamenn sem höfðu vogað sér að gagnrýna ráðamenn Sádi-Arabíu.

Khashoggi hvarf er hann fór á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi í byrjun mánaðarins. Tyrknesk yfirvöld hafa lengi fullyrt að hann hafi verið myrtur og í gær viðurkenndu sádi-arabísk stjórnvöld að Khashoggi hafi látist á ræðismannsskrifstofunni, en að það hafi gerst í kjölfar átaka sem spunnust út frá rifrildi. Evrópskir ráðamenn hafa margir hverjir látið í ljós efasemdir í dag um skýringu sádi-arabískra ráðamanna, en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt hana trúverðuga.

New York Times segir Khashoggi stundum hafa tekið netárásirnar persónulega og því hafi vinir hans haft þann hátt á að hringja oft í hann til að kanna hvernig honum liði andlega.

„Morgnarnir voru verstir af því að þegar hann vaknaði blasti við jafngildi viðvarandi skothríðar á netinu,“ hefur blaðið eftir Maggie Mitchell Salem, sem var vinur Khashoggis um 15 ára skeið.

Plakat á húsi verslunar í Ríad með mynd af feðgunum …
Plakat á húsi verslunar í Ríad með mynd af feðgunum Mohammed bin Salman krónprins og föður hans Salman Sádakonungi. AFP

Tilraun til að þagga niður í gagnrýnendum

Þeir sem stóðu að netárásunum á Khashoggi voru hluti af tilraunum Mohammed bin Salmans, krónprins Sádi-Arabíu, og ráðgjafa hans til að þagga niður í þeim sem gagnrýndu stjórn ríkisins heima og erlendis.

New York Times segir hundruð manna starfa á svonefndum tröllabúum (e. troll farms) í Ríad við að kæfa raddir mótmælenda og gagnrýnenda á borð við Khashoggi. Starf þeirra virðist  einnig hafa falið í sér að leggja rækt við sádi-arabískan starfsmann Twitter, sem vestrænar leyniþjónustur gruna um hafa njósnað um Twitter-reikninga sem hann hafi síðan sent sádi-arabískum yfirvöldum upplýsingar um.

Morðið á Khashoggi, sem var dálkahöfundur hjá bandaríska dagblaðinu Washington Post, hefur beint sjónum umheimsins að þeim aðgerðum sem sádi-arabísk yfirvöld virðast tilbúin að grípa til í því skyni að kæfa áhrifaraddir sem eru þeim andsnúnar. Segir New York Times það vekja upp spurningar um dekkri hliðar krónprinsins, sem hefur kynnt sjálfan sig á Vesturlöndum sem umbótamann.

Býflugurnar koma

Segir blaðið sádi-arabíska fulltrúa hafa fylkt liði við að ásækja gagnrýnendur á Twitter, en samfélagsmiðillinn hefur notið mikilla vinsælda í landinu frá því arabíska vorið hófst 2010. Saud al-Qahtani, einn helsti ráðgafi Mohammed prins og sem rekinn hefur verið úr starfi fyrir þátt sinn í dauða Khashoggis, var skipuleggjandi Twitter-árásanna að því er New York Times hefur eftir bandarískum og sádi-arabískum embættismönnum.

Áður en Khashoggi lést var hann að vinna að því að koma á fót verkefni sem átti að taka á neteinelti og eins var hann að reyna að leiða í ljós að Mohammed prins færi illa með stjórn Sádi-Arabíu. Hafði Khashoggi fengið sádi-arabískan mótmælanda sem búsettur er í Kanada í lið með sér til að skipuleggja her sjálfboðaliða til að taka á nettröllum sádi-arabískra stjórnvalda á Twitter. Kallaði sjálfboðaliðahópurinn sig „rafrænu býflugurnar“.

Ellefu dögum áður en hann lést skrifaði Khashoggi á Twitter að býflugurnar væru að koma.

New York Times segir hundruð ungra manna leita starfa á …
New York Times segir hundruð ungra manna leita starfa á tröllabúi sádi-arabískra yfirvalda við að leita að röddum og samræðum á Twitter sem þurfi að þagga niður í. AFP

Fá lista af fólki sem þarf að ógna

New York Times segir hundruð ungra manna leita starfa á tröllabúi sádi-arabískra yfirvalda við að leita að röddum og samræðum á Twitter sem þurfi að þagga niður í.

Stjórnendur eru sagðir ræða reglulegar um hvað séu bestu leiðirnar til að þagga niður í mótmælendum eða til að taka á viðkvæmum málum á borð við stríðinu í Jemen eða réttinum kvenna. Málið sé svo sett í hendurnar á „samfélagsmiðlasérfræðingum“ í gegnum hópspjall á borð við WhatsApp eða Telegram og þeim þannig sendur listi af fólki sem þeir eigi að ógna, móðga eða skelfa.

Þá fá starfsmennirnir einnig sendar svonefndar net-„meme“ myndir sem þeir geta notað til að hæða gagnrýnendur. Eru sérfræðingarnir sagðir leita á Twitter að ákveðnum umræðuefnum og sendir hver þeirra pósta frá nokkrum ólíkum reikningum. Stundum þegar umræður verða þrætugjarnar birta þeir klámfengnar myndir til að að auka fylgi við eigin pósta og til að beina athygli notenda frá hinum raunverulegu samræðum.

Tímaritið Times hefur undir höndum samræður þar sem að tugir sérfræðinganna ákváðu að þagga niður í gagnrýnanda á árásir Sádi-Araba á Jemen með því að merkja við skilaboðin sem „viðkvæm“. Twitter felur sjálfkrafa slíkar færslur frá öðrum notendum og dregur þar með úr áhrifum þeirra.

Erfitt að stjórna nettröllum

New York Times segir Twitter eiga í erfiðleikum með að taka á nettröllum. Fyrirtækið geti greint og gert óvirka reikninga sem stjórnað er af net-bottum, en það á erfiðara með að greina einstaklinga sem senda Twitter-skilaboð fyrir sádi-arabísk stjórnvöld.

Sérfræðingar sádi-arabískra stjórnvalda fundu raunar störfin í gegnum auglýsingar sem birtar voru á Twitter. Þar var auglýst eftir ungum mönnum sem væru tilbúnir að starfa við að senda Twitter-skilaboð og fá greitt fyrir andvirði um 350.000 kr. á mánuði. Pólitískt eðli starfsins var ekki gefið upp fyrr en að loknu viðtali.

Twitter getur greint og gert óvirka reikninga sem stjórnað er …
Twitter getur greint og gert óvirka reikninga sem stjórnað er af net-bottum, en það á erfiðara með að greina einstaklinga sem senda Twitter-skilaboð fyrir sádi-arabísk stjórnvöld. AFP

Steve Bannons Sádi-Arabíu“

New York Times hefur eftir nokkrum þeirra sem sóttu um að þeir hafi óttast að verða brennimerktir sem mótmælendur ef þeir tækju ekki starfinu. Þeir sögðust enn fremur oft hafa heyrt stjórnendur tala um Qahtani og var gjarnan vitnað til hans sem „tröllameistarans“, „Steve Bannons Sádi-Arabíu“ og „flugnahöfðingjans“.

Er Qahtani sagður hafa stjórnað fjölmiðlaaðgerðunum innan hirðarinnar. Hann hafi haft áhrif á umfjöllun sádi-arabískra fjölmiðla og hafi séð um að koma á viðtölum erlendra fjölmiðla við krónprinsinn. Þá hafi hann nýtt eigin Twitter-fylgjendur, sem eru 1,35 milljónir talsins, til að verja Sádi-Arabíu gegn gagnrýnendum á borð við Khashoggi.

Nýttu starfsmann Twitter

New York Times segir forsvarsmenn Twitter hafa í lok árs 2015 hafa orðið vara við mögulega áætlun um að komast inn á reikninga notenda samfélagsmiðilsins, eftir að vestrænar leyniþjónustur greindu þeim frá að sádi-arabísk yfirvöld væru að vinna að því að fá einn starfsmanna þeirra, Ali Alzabarah, til að njósna um reikninga mótmælenda og annarra.

Alzabarah hóf störf hjá Twitter 2013 og gegndi stöðu verkfræðings hjá fyrirtækinu og hafði sem slíkur aðgang að persónuupplýsingum, m.a. símanúmerum, IP-tölum og lykilorðum notenda, sem upplýsingar um notkun á reikningum þeirra. Er Alzabarah, sem var orðinn náinn nokkrum sádi-arabískum leyniþjónustumönnum, sagður hafa notað aðgang sinn til að skoða nokkra reikninga að því er blaðið hefur eftir þremur heimildamönnum.

Twitter setti Alzabarah samstundis í leyfi á meðan málið var rannsakað. Fyrirtækið fann engar sannanir þess að hann hefði afhent Sádum upplýsingar um notendur, en hann var engu að síður rekinn. Hann sneri þá aftur til Sádi-Arabíu og starfar nú fyrir stjórnvöld þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert