Rannsaka falsfréttaflóð vegna kosninga

Brasilísku forsetaframbjóðendurnir, Fernando Haddad (t.v.) og Jair Bolsonaro (t.h.).
Brasilísku forsetaframbjóðendurnir, Fernando Haddad (t.v.) og Jair Bolsonaro (t.h.). AFP

Embætti brasilíska ríkislögreglustjórans rannsakar nú mikið magn rangra upplýsinga sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum gegn forsetaframbjóðendunum tveimur sem taka þátt  í seinni umferð forsetakosninganna í landinu.

Öryggismálaráðherra landsins, Raul Jungmann, greindi frá þessu í dag eftir að dagblaðið Folha de Sao Paulo sagði frá því að fyrirtæki verið ráðin til að senda meirihluta þeirra 120 milljóna Brasilíubúa sem nota WhatsApp þjónustuna skilaboð sem innihalda árásir á annan frambjóðendanna, vinstri manninn Fernando Haddad.

Haddad hefur sakað mótframbjóðanda sinn, hægri-öfgamanninn Jair Bolsonaro, um að standa að WhatsApp herferðinni. Segir hann herferðina vera „ærumeiðandi“ og að um sé að ræða ólöglega kosningaherferð sem kalli á aðgerðir frá kjörstjórn.

AFP-fréttastofan hefur eftir Jungmann að hann sé að bregðast við ábendingum frá skrifstofu ríkissaksóknara um að lögregla rannsaki skipulagðan falsfréttaflutning á netinu gegn báðum frambjóðendum og hvort að glæpur hafi verið framinn.

Forsvarsmenn WhatsApp segjast þegar hafa gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að fyrirtæki noti þjónustuna til að senda út hópskilaboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert