Halda göngunni áfram inn í Mexíkó

Fólkið virðist ekki ætla að láta neitt stöðva sig.
Fólkið virðist ekki ætla að láta neitt stöðva sig. AFP

Hópur tæplega 3.000 Hondúrasbúa, sem ganga nú frá Hondúras til Bandaríkjanna í leit að betra lífi, hélt ferð sinni áfram í dag, en óeirðalögreglan náði að stöðva för hans í gær yfir landamærin frá Gvatemala til Mexíkó. AFP-fréttastofan segir frá.

Einhverjir höfðu komist yfir landamærin á föstudag en lögregla náði að hrekja flesta til baka, meðal annars með því að beita táragasi á hópinn. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafði fyrirskipað stjórnvöldum í bæði Gvatemala og Mexíkó og stöðva fólkið, og þakkaði í gær Mexíkó fyrir sitt framlag. Þá hafði hann hótað því að loka landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir að fólkið kæmist inn í landið.

Eftir að fólkið hafði verið stoppað af í gær reyndu þó sumir að komast á bátum eða syndandi yfir á sem skilur löndin að. Nú virðist hins vegar sem hópurinn sé lagður af stað aftur og freisti þess að komast yfir landamærin.

Hópurinn samanstendur af tæplega 3.000 manns á öllum aldri.
Hópurinn samanstendur af tæplega 3.000 manns á öllum aldri. AFP

Yf­ir­völd í Mexí­kó hafa lýst því yfir að þeir sem eru með gild vega­bréf og vega­bréfs­árit­un fái að kom­ast inn í landið, en það á lík­lega við fáa í hópn­um. Aðrir þurfi að sækja um hæli eða snúa til baka. Þeir sem reyni að kom­ast ólög­lega inn í landið verði færðir í varðhald og vísað úr landi.

Langflestir úr hópnum eru Hondúrasbúar sem ætla sér að ganga hátt í 5.000 kílómetra frá Hondúras til Bandaríkjanna, en fólkið er að flýja fátækt og ofbeldi í heimalandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert