„Við vitum ekki hvar líkið er“

Adel Ahmed Al-Jubeir utanríkisráðherra Sádi-Arabíu segir drápið á Khashoggi vera …
Adel Ahmed Al-Jubeir utanríkisráðherra Sádi-Arabíu segir drápið á Khashoggi vera hræðileg mistök. AFP

Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu sagði í viðtali við fréttastofu Fox sjónvarpstöðvarinnar að stjórnvöld í landinu ekki vita hvar lík sádi-arabíska blaðamannsins Jamal Khasoggis sé að finna. Sagði ráðherrann málið vera „hræðileg mistök“.

Khashoggi hvarf er hann fór á ræðismanns­skrif­stofu Sádi-Ar­ab­íu í Ist­an­búl í Tyrklandi í byrj­un mánaðar­ins. Tyrk­nesk yf­ir­völd hafa lengi full­yrt að hann hafi verið myrt­ur og viður­kenndu sádi-ar­ab­ísk stjórn­völd á föstudagskvöld að Khashoggi hafi lát­ist á ræðismanns­skrif­stof­unni, en að það hafi gerst í kjöl­far átaka sem spunn­ust út frá rifr­ildi.  Evr­ópsk­ir ráðamenn hafa marg­ir hverj­ir látið í ljós efa­semd­ir um skýr­ingu sádi-ar­ab­ískra ráðamanna. Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti, sem sagði skýringuna í fyrstu trúverðuga, hefur nú dregið í land með þá yfirlýsingu.

Sagði Jubeir í viðtalinu við Fox að ráðamenn í Sádi-Arabíu hefðu upphaflega staðið í þeirri trú að Khashoggi hefði verið lifandi er hann yfirgaf ræðismannsskrifstofuna. Í kjölfar þeirra upplýsinga sem þeir fengu frá tyrkneskum stjórnvöldum hafi sádi-arabísk stjórnvöld hins vegar hafið sína eigin rannsókn og þau hafi þá uppgötvað að Khashoggi hefði verið myrtur á ræðismannsskrifstofunni.

„Við vitum ekki hvernig, við þekkjum ekki smáatriðin,“ sagði Jubeir. „Við vitum ekki hvar líkið er.“

Bætti ráðherrann því næst við að ríkissaksóknari Sádi-Arabíu hefði látið setja 18 einstaklinga í gæsluvarðhalds vegna málsins og að það væri fyrsta skrefið á langri leið.

Sagði Jubeir drápið vera „hræðileg mistök“, en að hann teldi samskipti Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu getað yfirkomið þau mistök.

„Einstaklingarnir sem gerðu þetta, gerðu það utan stjórnar yfirvalda. Það voru greinilega gerð hræðileg mistök og ofan á það voru mistök að reyna að hylma yfir þetta,“ sagði hann.

„Þetta er óásættanlegt fyrir nokkur stjórnvöld. Svona hlutir gerast því miður og við viljum tryggja að þeim sem bera ábyrgð á þeim sé refsað og við viljum tryggja að við höfum verklag til staðar sem tryggi að svona gerist ekki aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert